Vill umræðu um hermálið

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

„Frá okkar bæjardyrum séð er alveg ljóst að stóraukin eða föst viðvera kallar á umræðu í íslensku samfélagi og óeðlilegt að einhverjar slíkar ákvarðanir séu teknar án þess að hún sé tekin. Hins vegar er talsvert erfitt að átta sig á þessu þar sem málið hefur ekkert verið kynnt í þinginu og einu upplýsingarnar sem raun og veru liggja fyrir eru þær sem komið hafa fram í fjölmiðlum og það eru náttúrulega nokkuð skrítin vinnubrögð satt að segja.“

Þetta segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við mbl.is um fyrirhugaða aukna viðveru Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt að föst viðvera hersins hér á landi hafi ekki verið rædd við bandarísk stjórnvöld og að þær viðræður sem fram hafi farið rúmist innan varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna þar sem gert sé ráð fyrir að varnarþörf landsins sé metin á hverjum tíma.

„Bandaríkjamenn hafa auðvitað haft hér tímabundna viðveru á ákveðnu svæði sem NATO hefur verið með og notað að einhverju marki. En öll útvíkkun á þeirri stöðu þarfnast auðvitað umræðu þó þetta kunni mögulega að vera í anda samkomulagsins við Bandaríkin. Ef þarna er á ferðinni ákveðin grundvallarbreyting eins og virðist vera þá þykir okkur eðlilegt að umræða fari fram um það og þingmenn fái ekki bara upplýsingar um það í gegnum fjölmiðla.“

Óttarr segist ennfremur þeirrar skoðunar í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram um málið í fjölmiðlum að eðlilegt sé að utanríkisráðherra verði boðaður á fund utanríkismálanefndar Alþingis, sem Óttarr á sæti í, til að upplýsa nefndarmenn um það hver eiginleg staða málsins er og svara spurningum þeirra. „Þetta er að mínu mati alveg borðleggjandi mál sem nefndin ætti að vera upplýst um miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert