Fyrirmynd vegna lögunar kynfæranna?

Afar fáir karlmenn starfa á leikskólum landsins. Myndin tengist fréttinni …
Afar fáir karlmenn starfa á leikskólum landsins. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ómar Óskarsson

Hugsa þarf vel um unga karlmenn sem starfa sem leiðbeinendur í leikskólum, þeir þurfa að fá fjölbreyttari verkefni og eiga ekki að þurfa að upplifa óþægilegar umræður á kaffistofunni. Karlmaður var talinn vera hommi þegar hann hóf störf á leikskóla og var hann skilinn útundan þegar samstarfskonur hans hittust utan vinnutíma.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Egils Óskarssonar leikskólakennara Frá leiðbeinanda til leikskólakennara – af hverju fór ég þessa leið? á ráðstefnu um stöðu karla í yngri barna kennslu fór fram í dag. Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda í leikskóla, SKÁL, Samband íslenskra sveitarfélaga, RannUng og menntamálaráðuneytið efndu til ráðstefnunnar.

Egill hóf störf í leikskólanum Fögrubrekku í Kópavogi árið 2005 og útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2010 frá Háskólanum á Akureyri. Hann fjallaði um hvað varð til þess að hann gerðist leikskólakennari, þau viðhorf sem hann hefur mætt í gegnum nám sitt og starf og hugmyndir hans um ástæður þess að karla sæki síður í leikskólakennarastarfið.

Fékk nóg af bréfberastarfinu

„Ég er nokkuð venjulegur, ungur karlmaður sem valdi sér miðað við kynjahlutverk óvenjulegan starfsvettvang,“ sagði Egill. Eftir að hafa stundað nám við þrjá menntaskóla ákvað hann að taka sér hlé frá námi og hóf störf sem bréfberi.

Eftir að hafa gengið um Kópavog í öllum veðrum fékk hann nóg og sótti um starf leiðbeinanda á leikskólanum Fögrubrekku. Sagðist Egill í erindi sínu alltaf hafa haft gaman af því að umgangast börn og var hann beðinn um að gæta barna líkt og frænkur hans á unga aldri.

Honum datt þó ekki í hug að með þessari ákvörðun væri hann kominn í framtíðarstarfið. „Ég var aldrei einn af þeim sem fann snemma út hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór,“ sagði Egill. Í grunnskóla vildi hann verða slökkviliðsmaður en í menntaskóla lögfræðingur.

„Þegar ég hóf störf á Fögrubrekku hafði ég ekki hugmynd um hvað ég ætti að gera. Síðan fór ég að hallast að því að það væri ekki svo vitlaust að verða leikskólakennari. Mér hefur þó alltaf þótt gaman að vinna með börnum, börn eru frábært fólk. Það eru ekki mörg störf þar sem manni er fagnað innilega þegar maður mætir í vinnuna, á hverjum degi,“ sagði Egill.

Að sjá alla litlu sigrana

„Það er líka alltaf eitthvað í gangi. Þau eru að upplifa nýja hluti. Hafið þið fylgst með börnum sem eru að læra að segja brandara, það er frábært. Það er oft sagt að börn séu eins og vísindamenn. Hvað gerist ef ég sting þessu í munninn? Hvað gerist ef ég hendi þessu í gólfið? Þau prófa allar hliðar,“ sagði Egill.

„Þarna kem ég líka inn á það sem gefur mér mest í starfinu og átti stóran þátt í því að ég fór í námið. Að sjá alla þessa litlu sigra sem eru ekki svo litlir, að sjá nýja færni verða til, að sjá einstakling sigrast á áskorun,“ sagði Egill og bætti við að faglega starfið og fræðilegi heimurinn hafi dregið hann inn í námið.

Þegar Egill hóf störf á leikskólanum var hann í afleysingum og fékk því að prófa að starfa með börnum á öllum aldri. Í hverjum mánuði var haldinn starfsmannafundur að loknum vinnutíma en fundirnir hófust á því að kennarar eins hóps sýndu uppeldisfræðilega skráningu og því næst var hún rædd.

„Ég komst að því í gegnum þetta að fræðaheimurinn að baki starfinu er stórmerkilegur og er í mikilli þróun,“ sagði Egill og áttaði sig smá saman á því að það gæti verið gaman að gera þetta að ævistarfi, að leikskólinn þyrfti ekki aðeins að vera stutt stopp á meðan hann kæmist að því hvað hann vildi gera þegar hann yrði stór.

Var hann kynntur fyrir fjarnámi við HA og samningum sem Kópavogsbær bauð upp á, þ.e. að þau sem væru að læra að verða leikskólakennarar yrðu ekki fyrir launatapi ef þau yrðu frá vinnu vegna skólans en aftur á móti væru þau skuldbundin til að vinna fyrir bæinn í tvö ár eftir útskrift.

Töldu að Egill væri samkynhneigður

„Í dag, ellefu árum eftir að ég gekk fyrst inn sem óreyndur leiðbeindandi, er ég leikskólakennari og með MA-gráðu í menntavísindum og næstum því búinn að sætta mig við að vera orðinn stór. Hljómar einfalt en var ekki alltaf eintóm hamingja,“ sagði Egill en hann þurfti meðal annars öðru hverju að útskýra af hverju hann hefði valið að verða leikskólakennari. Sagðist hann efast um að hann hefði verið beðinn um að útskýra jafnoft ef hann hefði valið lögfræði.

Einhverjir töldu að Egill væri samkynhneigður þegar þeir heyrðu af vali hans og segir Egill að það hafi ekki truflað hann. Þá var hann einnig spurður hvort hann væri ekki hræddur um að vera sakaður um barnaníð í starfi. Þá fékk hann líka að heyra hversu gott það væri að karlar gerðust leikskólakennarar af því að mörg börn vanti karlfyrirmyndir.

„Er ég fyrirmynd af því að ég er góður kennari eða af því að ég er karl og kennari,“ velti Egill fyrir sér og sagðist finnast skrýtið að vera fyrirmynd barna aðeins vegna þess hvernig kynfæri hans eru í laginu. Algengustu spurningarnar sneru aftur á móti að laununum og sagðist hann gera sér grein fyrir að hann yrði aldrei beinlínis ríkur í þessu starfi.

Þá varð Egill einnig var við staðalímyndir, til að mynda að gott væri fyrir unga drengi að hafa karlmenn í leikskólunum því þá gætu þeir hamast saman í ærslafullum leikjum. Þetta sagðist Egill bæði hafa heyrt frá samfélaginu og leikskólakennurunum og leikskólastjórum og velti hann fyrir sér hvort karlmenn séu oft í þessu hlutverki vegna þess að þeir vilji helst sinna því.

„Eða er það af því að þeim er stýrt í það,“ spurði hann og velti fyrir sér hvort ungum mönnum sé síður treyst fyrir sömu verkum og ungum konum á leikskólunum. „Getur verið að þetta sé ástæða þess að sárafáir enda í starfinu, af því að þeir fá ekki að kynnast hliðum starfsins sem toga okkur í námið,“ spurði Egill.

Hópurinn ávarpaður í kvenkyni

Egill sagðist hafa þurft að stilla sig inn á ákveðna hluti í námi og starfi sem séu bein afleiðing skakkra kynjahlutfalla. „Í náminu þurfti ég stundum að sjá hvernig vindarnir blésu í samskiptum kvennanna, með hverjum ég var að fara að gera næsta paraverkefni,“ sagði Egill og bætti við að hann hefði verið sá eini sem mætti aldrei með barn í tíma. Sjálfur átti hann ekki barn til að koma með en hafði ekki hugmynd um að það teldist alveg eðlilegt að koma með börn í tíma í háskóla.

Á leikskólanum kemur það oft í hlut Egils að bera hluti eða setja saman húsgögn úr IKEA. Eftir ellefu ár í starfi kemur ekki óvart að hópur á námskeiði sé ávarpaður í kvenkyni, jafnvel þó að Egill sé í hópnum. Sagði hann viðkomandi þó oft átta sig á mistökunum og biðjast afsökunar í kjölfar.

Þá heyrist yfirleitt úr salnum: „Hann er orðinn vanur þessu,“ sagði Egill og bætti við að konurnar þyrftu að passa sig á þessu. Sagði hann samstarfskonur sínar allajafna hafa tekið sér vel í gegnum tíðina og væri hann ekki leikskólakennari ef viðmótið hefði meira og minna verið neikvætt.

Þá sagðist Egill aðeins hafa fengið jákvætt viðhorf frá foreldrum. Sagðist hann hafa verið dálítið stressaður þegar hann hringdi í fyrsta skipti í foreldra til að bjóða barni þeirra laust pláss á leikskólanum. Í ljós kom að engum fannst þetta tiltökumál.

„Í dag eigum við litla möguleika á því að fá inn í stéttina fulltrúa úr hópi sem er helmingur þjóðarinnar. Getið þið ímyndað ykkur hvað leikskólarnir gætu orðið öflugir ef þetta breyttist,“ spurði Egill. „Við þurfum að breyta þessu þeirra vegna líka, starfið er gífurlega gefandi.“

Upplifi ekki óþægindi á kaffistofunni

Egill sagði einnig að honum finndist stundum fara of mikill tími í að ræða allar mögulega og ómögulegar hliðar á málunum á starfsmannafundum í stað þess að slá til og framkvæma frekar fyrr. Þá séu stundum þrjú til fjögur samtöl í gangi og eigi hann erfitt með að fylgjast með. Þá geti umræðurnar á kaffistofunni orðið óþægilegar þegar um persónuleg, líffræðileg umræðuefni er að ræða og sagði hann konurnar í stéttina mega vera meðvitaðri um þetta.

Þá velti Egill fyrir sér hvort hækka þurfi launin. „Ég ætla ekki að afþakka hærri laun,“ sagði hann og bætti að að það væri óumdeilt að launin skipti máli. Af einhverjum ástæðum væru þó til störf þar sem karlar sæki í meiri mæli þó um láglaunastörf sé að ræða. Sagðist Egill telja að virðingin fyrir starfinu skipti einnig verulega miklu máli. „Karlar virðast vera að taka niður fyrir sig og þurfa að réttlæta starfsvalið. Það er ekki eðilegt,“ sagði Egill.

 „Við vitum að strákunum okkar líður verr í skóla,“ sagði Egill og benti á að börn verji að jafnaði fjórum til fimm árum í leikskóla, tíu árum í grunnskóla og nokkrum í menntaskóla. Velti hann fyrir sér hversu líklegt væri að einstaklingur sem hefði liðið illa meirihluta þessa tími vilji verja starfsævinni innan skólakerfisins.  

„Hvað getum við gert,“ spurði Egill. Sagði hann að hægt væri að hugsa vel um ungu mennina sem gerast leiðbeinendur á leikskólum, látið þá fá fleiri verkefni, leyfa þeim að vera þeir sjálfir. Þá eigi þeir heldur ekki að þurfa upplifa óþægindi á kaffistofunni. Rifjaði Egill upp atvik þar sem jafnöldrur hans á leikskólanum ákváðu að hittast og skemmta sér saman en honum var aftur á móti ekki boðið með. Sagðist honum hafa sárnað og ekki fundist hann hluti af hópnum.

Sagði Egill að það væri ákveðin byrjun að ná til ungu mannanna. Ef drengirnir í leikskólanum eldust upp við að þar væru bæði konur og karlar að gæta þeirra hefði það líka áhrif, sem og ef stjórnendur skólanna réðu fleiri karla til starfa.

 

 

 

Þau eru að upplifa nýja hluti, sagði Egill í erindi …
Þau eru að upplifa nýja hluti, sagði Egill í erindi sínu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Þórður Arnar Þórðarson
Þegar Egill hóf störf á leikskólanum var hann í afleysingum …
Þegar Egill hóf störf á leikskólanum var hann í afleysingum og fékk því að prófa að starfa með börnum á öllum aldri. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Styrmir Kári
Þá varð Egill einnig var við staðalímyndir, til að mynda …
Þá varð Egill einnig var við staðalímyndir, til að mynda að gott væri fyrir unga drengi að hafa karlmenn í leikskólunum því þá gætu þeir hamast saman í ærslafullum leikjum. Heiðar Kristjánsson
Egill hóf störf í leikskólanum Fögrubrekku í Kópavogi árið 2005 …
Egill hóf störf í leikskólanum Fögrubrekku í Kópavogi árið 2005 og útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2010 frá Háskólanum á Akureyri. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Styrmir Kári
Kátir krakkar af leikskólanum Miðborg. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Kátir krakkar af leikskólanum Miðborg. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert