Þrjú börn urðu eftir á Kastrup

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Þrjú íslensk börn urðu eftir á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn í Danmörku eftir að flugvallarstarfsmaður á innritunarborði WOW air meinaði yngsta barninu að fljúga. Barnið, sem er 8 ára, var hvorki í fylgd einstaklings yfir 18 ára aldri á flugvellinum né hafði verið keypt fylgd fyrir það.

Að sögn Einars Hannessonar, föður barnanna, eru vinnubrögð WOW air og flugvallarstarfsmannsins forkastanleg þar sem börnin þrjú hafa margoft flogið áður án þess að þurfa neina fylgd. Þegar það kom skyndilega upp, að yngsta barnið mátti ekki fljúga án fylgdar reyndi Einar símleiðis frá Íslandi að kaupa fylgd fyrir barnið en án árangurs. „Ég grátbað um að kaupa þessa fylgd,“ segir Einar og bætir því við að hann hafi jafnframt reynt að hafa uppi á neyðarnúmeri WOW air til þess að leysa málin, en sama hvað hann reyndi tókst honum ekki að ná sambandi við neinn hjá WOW air.

Gekk framhjá börnunum eftir að hafa innritað flugfarþegana

Einar segir að þegar starfsmaðurinn á innritunarborðinu hafi lokið við að innrita alla flugfarþegana, fyrir utan börnin þrjú, hafi hún gengið fram hjá börnunum án þess að huga nokkuð að því hvað yrði um börnin. Við það er Einar mjög ósáttur, og furðar sig á því hvers konar öryggisreglur það sé að meina þremur ferðavönum börnum að ferðast en skilja þau svo eftir í flugstöðinni.

Svörin sem Einar fékk í kjölfarið frá WOW air voru á þá leið að börnum yngri en 12 ára sé óheimilt að fljúga séu þau ekki í fylgd einstaklings yfir 18 ára aldri líkt og það hafi verið í langan tíma.

Einar segir það einfaldlega rangt, því börnin hafa alltaf getað ferðast til Íslands þrátt fyrir að vera ekki í fylgd sjálfráða einstaklings. „Eina skiptið sem ég hef keypt fylgd var þegar yngsta barnið var fjögurra ára,“ segir Einar og rifjar upp fyrir blaðamanni þegar elsti sonur hans, sem var ekki með í för í þetta sinn, hafi verið 15 ára og með þrjú börn undir 12 ára. 

Hann bendir jafnframt á að reglurnar hjá öðrum flugfélögum, t.d. Icelandair, séu með þeim hætti að börn yngri en 12 ára þurfi að vera í fylgd einstaklings 12 ára eða eldri. „Enda eru 12 ára fullorðnir þegar þú bókar flugmiða,“ segir Einar.

Voru send ein á flugvöllin

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW segir reglur félagsins skýrar þegar kemur að því að flytja börn á milli landa. Einstaklingur 12 ára og eldri getur ferðast án fylgdar. Börn sem hafa ekki náð 12 ára aldri og ferðast án foreldra eða forráðamanna verða að bóka sérstaklega fylgd og greiða fyrir það. Farþegar sem hafa ekki náð 18 ára aldri geta ekki verið forráðamenn fyrir börn yngri en 12 ára.

Segir hún að WOW air taki ekki ábyrgð á börnum undir 12 ára aldri nema þau sé í fylgd. Börn sem ferðast með fylgd  eru á ábyrgð forráðamanna þar til starfsmaður á vegum þess tekur við umsjón þess. Samkvæmt reglum WOW er foreldri eða forráðamanni barns sem ferðast eitt óheimilt að yfirgefa flugvöllinn fyrr en flugvélin er farin í loftið. Í þessu tilfelli voru forráðamenn ekki til staðar á flugvellinum, en þau höfðu verið send ein með lest á völlinn.

Tekur hún jafnframt fram að gestir sem ferðist með WOW air geti verið viss um það að börn sem bóka fylgd eru á ábyrgð félagsins. WOW starfi eftir skýrum reglum þegar kemur að flutningi barna á milli landa og gætir allra viðeigandi öryggisreglna. Engar undantekningar séu gerðar frá þessum reglum, enda geti slíkt haft alvarlegar afleiðingar.

Einar Hannesson.
Einar Hannesson. Ljósmynd/Einar Hannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert