Lásu uppi í rúmi í IKEA

Lestrarhestar fjölmenntu í IKEA í dag.
Lestrarhestar fjölmenntu í IKEA í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fólk á öllum aldri kom sér fyrir í rúmum, sætum og sófum víðs vegar um IKEA í dag. Þar var slakað á og gripið í góða bók. Þetta var þó ekki tilviljanakennd hegðun þar sem aðstandendur landsleiksins „Allir lesa“ smöluðu lestrarhestum í verslunina.

Lestrarstundin í IKEA var haldin í tilefni þess að síðasta vika leiksins hófst í dag. Leikurinn felst í því að hópar keppast um að verja sem mestum tíma í lestur. Lestrartíminn er skráður vandlega niður og í lokin verða sigurlið heiðruð með viðurkenningum og verðlaunum. 

„Þeir sem standa að átakinu höfðu samband við okkur og langaði að halda viðburðinn hér. Við tókum að sjálfsögðu vel í það,“ segir Kristín Lind Steingrímsdóttir, markaðsstjóri IKEA, í samtali við mbl.is. Hún segir daginn hafa gengið mjög vel og var mætingin góð.

Stofudeildin vinsælust 

Gunnar Helgason, las þá einnig upp úr bókinni sinni, Mamma klikk, en hún hefur setið á toppi vinsældarlista allirlesa.is frá fyrsta degi landsleiksins. „Það var mjög skemmtilegt og hann gerði þetta með leikrænum tilburðum líkt og honum er einum lagið. Að því loknu settust eða lögðust allir niður við lestur,“ segir Kristín.

Fólk stoppaði mislengi við lesturinn að sögn Kristínar. „Sumir settust í sófana í smá stund og lásu fyrir börnin sín og það var voðalega huggulegt,“ segir hún og bætir við að stofudeildin hafi verið vinsælasta lestrarsvæðið. „En síðan lögðust aðrir bara upp í rúm. Ég sá til dæmis þrjú börn liggja í röð uppi í rúmum og lesa. Það var mjög sætt,“ segir Kristín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert