Skallaði dyravörð í andlitið

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Lögreglan handtók mann sem hafði skallað dyravörð á hóteli, hafði afskipti af ölvuðum ökumönnum og þá var ekið á ungan mann.

Töluverður erill var einnig hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í sjúkraflutningum, en þeir voru um 45 talsins í nótt.

Fram kemur í dagbók lögreglu, að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu rétt rúmlega eitt í nótt. Tilkynnt var um ölvaðan mann sem hafði skallað dyravörð í andlitið á hóteli í austurborginni þar sem árshátíð var haldin. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. 

Rétt fyrri hálf tvö í nótt var tilkynnt um umferðaróhapp á Fífuhvammsvegi í Kópavogi. Þar hafði ungur maður orðið fyrir bifreið, en maður hafði verið þarna á göngu ásamt fleirum.  Ungi maðurinn fann fyrir eymslum en vildi ekki fara með sjúkrabifreið  á slysadeild.  Hann sagðist ætla að fara þangað síðar. 

Á fimmta tímanum í nótt var bifreið stöðvuð Bústaðavegi við Hringbraut.  Ökumaðurinn grunaður um ölvun við akstur.

Lögreglan hafði einnig afskipti af ökumanni í gærkvöldi sem var grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna.

Þá hafði lögregla afskipti af ungu fólki við Kirkjugarða Hafnarfjarðar vegna neyslu fíkniefna.  Einn kærður fyrir vörslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert