Hafði áhrif á 3000-3500 farþega Icelandair

Seinkun varð á öllum flugum til landsins núna í morgun …
Seinkun varð á öllum flugum til landsins núna í morgun vegna verkfallsaðgerða flugumferðastjóra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Seinkanir á flugi Icelandair vegna verkfallsaðgerða flugumferðastjóra í nótt höfðu áhrif á 3000-3500 farþega flugfélagsins. Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is.

Í gær þurfi ein vél félagsins frá London að lenda á Reykjavíkurflugvelli klukkan ellefu og fóru farþegar þaðan frá borði. Síðan var öllu Ameríkuflugi félagsins til landsins í morgun seinkað og eru vélarnar nýlentar, en verkfallsaðgerðum lauk klukkan sjö í morgun.

Guðjón segir að flestar vélarnar fari svo áfram til Evrópu núna á milli 8 og 8:30. „Ef allt gengur upp ætti flug að vera með eðlilegum hætti síðdegis,“ segir hann, en þá koma vélarnar frá Evrópu til baka áður en þær halda á ný vestur um haf.

Aðspurður um hvort forsvarsmenn Icelandair hafi heyrt af frekari aðgerðum flugumferðastjóra segir Guðjón svo ekki vera.

Frétt mbl.is: Áhrifin ná til þúsunda farþega

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert