Pólitísk ólga getur ógnað efnahagslegu jafnvægi

Gylfi Arnbjörnsson segir að enn sé glímt við gamla drauga
Gylfi Arnbjörnsson segir að enn sé glímt við gamla drauga mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Átakið Einn réttur – ekkert svindl sýnir að við erum enn að glíma við svipaða drauga og við upphaf síðustu aldar,“ segir Gylfi Arnbjörnssonar, forseti ASÍ, í Morgunblaðinu í dag. Átakið hvetur fólk til að láta vita af þeim sem brjóta á fólki með því að nýta sér þekkingarleysi þess.

Gylfi sagði að yfirskrift hátíðarhaldanna 1. maí tengdist 100 ára baráttu fyrir réttindum og kjörum á vinnumarkaði. Um leið væri það brýning um að ekkert mætti slaka á.

Hann sagði að tekist hefði að kveða niður verðbólguna að mestu með því frumkvæði sem vinnumarkaðurinn sýndi í ársbyrjun 2014. Með SALEK-rammasamkomulaginu og nýju samningalíkani hefði tekist að lægja öldur sem risu vegna misræmis í kjörum undir lok ársins 2014. Lágt olíuverð og styrking krónunnar vegna vaxtar ferðaþjónustunnar hefði stuðlað að því að atvinnulífið hefði getað byggt á þeim launabreytingum sem urðu á síðasta ári.

„Það sem getur ógnað þessu jafnvægi er ólga á vettvangi stjórnmálanna,“ sagði Gylfi. Hann sagði söguna sýna að hægt væri að glutra niður góðri stöðu í efnahagslífinu vegna ósættis á hinum pólitíska vettvangi. Stjórnmálaflokkarnir þyrftu að endurmeta stöðu sína bæði hvað varðar samskiptin eins og þau birtust á Alþingi og eins gagnvart kjósendum. Einnig þyrftu þeir sem skipuðu ríkisstjórn hverju sinni að endurskoða samskiptin við vinnumarkaðinn.

„Stóru atriðin þar lúta að velferðarpólitísku þáttunum. Við þekkjum ósætti þjóðarinnar gagnvart heilbrigðiskerfinu, húsnæðiskerfinu, almannatryggingakerfinu og öldrunarþjónustunni. Ef við ætlum að ná meiri sátt verða stjórnmálin að forgangsraða þessum stóru málum,“ sagði Gylfi.

Víða hátíð

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur fengið tilkynningar um 1. maí hátíðarhöld í meira en 30 sveitarfélögum víða um landið.

Þar fyrir utan munu stóru stéttarfélögin í Reykjavík vera með vegleg kaffisamsæti eftir að kröfugöngu, sem hefst kl. 13:30 á Hlemmi, og útifundi á Ingólfstorgi lýkur. Lúðrasveit mun leiða gönguna og fluttar verðar örræður á leiðinni niður Laugaveg. Útifundurinn hefst kl. 14:10 og honum á að ljúka kl. 15:00. Þar verða ávörp og tónlistarflutningur.

Nánar er hægt að lesa um hátíðarhöld víðs vegar um landið á heimasíðu ASÍ (www.asi.is).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert