308 tilkynningar um rottur í Reykjavík

Kvartanir vegna músa voru 98 en vegna rottu 308.
Kvartanir vegna músa voru 98 en vegna rottu 308. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Alls bárust 406 kvartanir um rottu og músagang til meindýravarna Reykjavíkur á síðasta ári. Hver kvörtun þýðir a.m.k. fjórar ferðir til eftirlits og skoðunar að meðaltali. Rottum og músum var eytt á þeim stöðum sem kvartanir bárust frá. Kvartanir vegna músa voru 98 en vegna rottu 308. Þetta kemur fram í ársskýrslu meindýravarna Reykjavíkur.

Fjórir starfsmenn unnu að meindýraeyðingu allt árið. Af þessum fjórum var einn starfandi við afleysingu starfsmanns í veikindaleyfi og var hann í vinnu til septemberloka. Einnig voru fjórir sumarstarfsmenn í vinnu frá maí til ágúst og sinntu forvarnarstarfi þ.e. eitrun í holræsabrunna. Eitrað var í 5.775 holræsabrunna 1.205 kg af beitu þ.e. 6.025 staukar, hver staukur er 200 grömm. Í niðurföll og  í fjörur borgarinnar var dreift 652 kg af beitu.

Kvörtunum vegna rottu og músa fjölgaði um 44 frá síðasta ári. „Þess má þó geta að undanfarinn áratug hefur kvörtunum sem borist hafa til Reykjavíkurborgar verið að fækka þó aðeins hafi verið sveiflur í kvörtunum milli ára,“ segir í ársskýrslunni.

Engar kvartanir vegna villidúfna

Þar segir jafnframt að fyrir nokkrum árum hafi þjónusta Meindýravarna Reykjavíkurborgar verið skert og útköllum ekki sinnt eftir klukkan 21 á kvöldin og ekki um helgar eins og áður. Í útköllum á þeim tímum þurfa borgarbúar að hafa samband við sjálfstætt starfandi meindýraeyða sem einnig hafa tekið að sér reglubundið meindýraeftirlit hjá fyrirtækjum.

Þessir áðurnefndu aðilar skila ekki af sér neinum gögnum um kvartanir vegna meindýra til opinberra aðila þannig að þar er um að ræða eitthvert magn kvartana vegna rottu og músa sem vantar í heildarmyndina.

Í skýrslunni segir jafnframt að engin kvörtun hafi borist á síðasta ári um óþægindi af völdum villidúfna en tíu kvartanir vegna kanína voru tilkynntar og voru 20 kanínur skotnar. Þá voru fjórar kanínur sóttar sem ekið hafði verið á í nágrenni við Stekkjarbakka og víðar í borginni.

Engin kvörtun barst á síðasta ári um óþægindi af völdum …
Engin kvörtun barst á síðasta ári um óþægindi af völdum villidúfna en tíu kvartanir vegna kanína voru tilkynntar mbl.is/Ómar Óskarsson

188 kettir handsamaðir

Vegna katta bárust 55 kvartanir og var þeim öllum sinnt og voru 188 kettir handsamaðir og fluttir í Kattholt, þar af voru um 100 kettir handsamaðir á tveimur stöðum þar sem söfnun katta hafði átt sér stað.

Þá bárust 29 kvartanir vegna minka á árinu og var þeim öllum sinnt en einnig fer meindýraeyðir með sérþjálfaða hunda að vori um þau svæði borgarinnar sem þá er helst að finna og leitar þá uppi. Þá veiddist einnig allmikið af mink í gildrur en um 70 gildrur eru í notkun að jafnaði allt árið. Í þessum aðgerðum náðust 129 minkar á árinu.

Skutu 3.553 vargfugla

Engin kvörtun barst vegna refa í ár en þrjú refagreni voru unnin af ráðnum grenjaskyttum þetta árið og náðust sex fullorðin dýr og 21 yrðlingur.

Skotnir voru 3.553 vargfuglar á árinu í borgarlandinu og tekin 663 egg.

84 kvartanir bárust vegna 95 geitungabúa sem staðsett voru við göngustíga,leikskóla,skóla og á opnum svæðum í borginni og var þeim öllum eytt.

Þá barst einnig fjöldi óska frá borgarbúum og lögreglunni í Reykjavík um aðstoð við að handsama eða fjarlægja ýmis dauð, særð eða lifandi dýr víða í borginni eða 178 beiðnir.

Af þessum 178 beiðnum voru 25 vegna katta sem voru fluttir dauðir á Dýraspítalann í Víðidal þar sem þeir höfðu fundist víða í borginni eftir að ekið hafði verið á þá eða önnur óhöpp valdið dauða þeirra. Starfsfólk Dýraspítalans tilkynnir eigendum dýranna um afdrif þeirra ef dýrin eru merkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert