Stjórnvöld bregðist við ástandi lífríkis Mývatns

Hrunið í hornsílastofninum hefur bitnað illa á urriðanum í Laxá …
Hrunið í hornsílastofninum hefur bitnað illa á urriðanum í Laxá og Mývatni. Veiðifélag Mývatns fundar í vikunni um nýja nýtingaráætlun urriða í vatninu. Birkir Fanndal

Veiðifélag Laxár og Krákár skorar á yfirvöld umhverfismála, bæði á landsvísu og á sveitarstjórnarstigi að bregðast við því alvarlega ástandi sem lýst hefur verið í lífríki Laxár og Mývatns í Suður-Þingeyjarsýslu.

Þetta kemur fram í ályktun veiðifélagsins, sem segir lífríki Mývatns og Laxár hafa verið undir miklu álagi undanfarna áratugi og sé svæðið nú á rauðum lista Umhverfisstofnunnar fjórða árið í röð. „Kúluskíturinn, sem aðeins finnst á einum öðrum stað í heiminum, er horfinn og botni Mývatns má líkja við uppblásinn eyðisand.“ Bleikjan hafi verið nánast friðuð sl. ár til að koma í veg fyrir útrýmingu og hornsílastofninn er í sögulegri lægð. „Við rannsóknir síðasta sumar veiddust 319 síli en sambærilegar rannsóknir síðustu 25 ár hafa skilað 3.000-14.000 sílum.“

Bitnar illa á urriðanum

Hrunið í hornsílastofninum hafi bitnað illa á urriðanum bæði í Laxá og vatninu og draga verði verulega úr veiðum á urriða í Mývatni nú í sumar. „Bakteríugróður, sem Mývetningar kalla leirlos, fer vaxandi og hefur síðustu tvö sumur verið með fádæmum og langt yfir þeim heilsuverndarmörkum sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin miðar við í vötnum þar sem útivist er stunduð. Leirlos í svo miklu magni hefur mjög neikvæð áhrif á lífríki Laxár allt til sjávar, sem og upplifun veiðimanna á svæðinu,“ segir í ályktun aðalfundar Veiðifélagsins, sem haldinn var í gær.

„Það sem er verst er að við vitum mjög lítið hvað er í gangi og þess vegna biðlum við til stjórnvalda,“ segir Bragi Finnbogason, formaður stjórnar Veiðifélags Laxár og Krákár. „Rýrnun á gæðum náttúrunnar gagnvart því sem við erum að gera er mjög alvarlegt mál.“ Minni veiði hafi slæm áhrif á viðskiptin. „Þeir veiðimenn sem greiða hæstu verðin hjá okkur, það eru þeir sem veiða á þurrflugu og það er bara mjög erfitt í mjög gruggugu vatni,“ segir Bragi. Góð veiði í ánni byggi á því að vatnið í henni sé með svipuðum hætti og það hefur verið.

Menn geti ekki annað en velt því fyrir sér hvað hafi breyst á undanförnum árum sem geti haft þessi áhrif á lífríkið. „Hvað hefur gerst á þessu svæði? Það er ekki mikið annað en fjölgun fólks. Við sjáum ekkert stórt annað en þessa ofboðslegu fjölgun manna.“

Veiðin skorin niður í næstum ekki neitt

Spurður hversu mikið eigi að draga úr urriðaveiðum í Mývatni, segir Bragi að Veiðifélag Mývatns muni funda um nýja útgáfu af nýtingaráætlun næsta miðvikudag. „Við fengum höfnun á nýtingaráætlunina sem var búið að gera af því að Fiskistofa taldi okkur vera komin út fyrir sjálfbærnina.“ Engu að síður hafi sú áætlun gert ráð fyrir minni veiðum enn í fyrra.  „Það er langt síðan við skárum veiðina niður í næstum ekki neitt að okkar eigin mati. Þannig að það eru blikur á lofti í þessu,“ segir Bragi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert