Harmar bann við sjónflugi

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Flugmálafélag Íslands harmar þá ákvörðun Isavia að banna sjónflug á Reykjavíkurflugvelli undanfarnar vikur vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra. Fram kemur í ályktun frá ársþingi félagsins að þessi ákvörðun þýði í raun að almanna- og kennsluflug sé óheimilt á vellinum. Á sama tíma sé skortur á atvinnuflugmönnum, flugkennurum og öðru fagfólki í flugmálum vegna mikils vaxtar í flugsamgöngum sem aftur sé burðarás íslenskrar ferðaþjónustu. Lokanirnar hafi í þessu sambandi bein og neikvæð áhrif.

„Flugumferð er eins og önnur umferð í landinu þar sem einstaklingar ákveða að ferðast loftleiðis á milli staða, stunda flugnám og fara í aðrar flugtengdar ferðir líkt og á bílum eða reiðhjólum. Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir ákveður Isavia að heimila alla starfsemi á Reykjavíkurflugvelli aðra en almanna- og kennsluflug. Ársþing Flugmálafélagsins telur þessa stöðu með öllu óásættanlega,“ segir ennfremur. Hvetur ársþingið Isavia og flugumferðarstjóra til þes að ná þegar í stað samningum og forða þannig frekara tjóni.

„Til vara hvetur ársþingið Isavia til þess að aflétta íþyngjandi kröfum um flugumferðastjórn á Reykjavíkurflugvelli þegar veðurskilyrði til flugs eru ákjósanleg.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert