Greta Salóme vinsæl í Stokkhólmi

Nokkurn tíma tók að staðsetja Gretu Salóme rétt á sviðinu …
Nokkurn tíma tók að staðsetja Gretu Salóme rétt á sviðinu í dag, þar sem engu má skeika svo grafíkin komi rétt út. Ljósmynd/Jónatan Garðarsson

Fyrsta æfing íslenska Eurovision-hópsins í Ericson Globe höllinni í Stokkhólmi var í dag og gekk hún ágætlega að sögn Jónatans Garðarssonar, liðstjóra íslenska hópsins.

„Það var ýmislegt sem við vissum að væri að áður en við fórum út, til dæmis á eftir að klára grafíkina og fleira þess háttar,“ segir Jónatan. „Þannig að við keyrðum æfinguna með hálfunninni grafík.“

Nokkurn tíma hafi þá tekið að staðsetja Gretu Salóme Stefánsdóttur, íslenska flytjandann, rétt á sviðinu. „Þetta er þannig grafík að hún þarf að vera alveg hárrétt staðsett og þetta var orðið mjög nálægt því í lokin.“ Greta Salóme Stefánsdóttir hafi verið ágætlega ánægð með rennslið og viðbrögðin eftir á þegar farið var í gegnum æfinguna með tæknifólkinu.

Blaðamenn og Eurovision-aðdáendur í Malmö muna eftir Gretu Salóme frá …
Blaðamenn og Eurovision-aðdáendur í Malmö muna eftir Gretu Salóme frá því í Aserbaídjan Ljósmynd/Jónatan Garðarsson

Hópurinn eigi síðan eftir að fá viðbætur inn í bakgrunnsgrafíkina og verði þær komnar þegar næsta æfing fer fram á stóra sviðinu á föstudag.

Muna eftir Gretu Salóme frá Aserbaídsjan

Jónatan segir Gretu Salóme vinsæla hjá fjölmiðlafólki og Eurovision-aðdáendum í Stokkhólmi. „Við vorum á „Meet the fans“ áðan og núna bíða blaðamenn í röð eftir að hitta hana.“ 25 blaðamenn hafi verið búnir að skrá sig í viðtal við Gretu Salóme áður en þau komu og margir til viðbótar hafi bæst við. Hann giskar á að um  50 blaðamenn hafi skráð sig að hitta söngkonuna. „Það ná því ekki allir í dag,“ segir hann.

„Þeir muna eftir henni frá því í Aserbaídsjan. Hún er mjög góð að svara fyrir sig og jákvæð og það skiptir miklu.“

Greta Salóme var ánægð með æfinguna í dag.
Greta Salóme var ánægð með æfinguna í dag. Ljósmynd/Jónatan Garðarson

Góð stemning er hjá íslenska Eurovision-hópnum og þó að dagskráin sé stíf, þá ætli þau að taka næsta morgundag rólega og fara út í almenningsgarð fyrir utan borgina. „Síðan erum við með æfingu uppi á hóteli seinnipartinn, í sal sem við höfum þar. Það eru tveggja tíma æfingar á hverjum degi og við höldum því áfram.“

Greta Salóme tók þátt í Meet the fans í dag, …
Greta Salóme tók þátt í Meet the fans í dag, þar sem aðdáaendum keppninnar gefst færi á að hitta flytjendur. Ljósmynd/Jónatan Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert