Menningarsetur múslima verði borið út úr Ýmishúsinu

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Menningarsetur múslima skuli borið út …
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Menningarsetur múslima skuli borið út úr Ýmishúsinu í Skógarhlíð. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Menningarsetur múslima skuli borið út úr Ýmishúsinu í Skógarhlíð. Stofnun múslima á Íslandi höfðaði mál á hendur Menningasetrinu og heldur því fram að  vera Menn­ing­ar­set­urs­ins í hús­næðinu byggi á samn­ingi sem hafi aldrei öðlast gildi sem leigu­samn­ing­ur og hafi verið þing­lýst í óþökk hús­eig­anda.

Stofn­un múslima keypti Ýmis­húsið árið 2010 og fékk afsal fyrir húsinu í ágúst 2012. Stofnunin segist hafa gert afnotasamning við Menningarsetrið um eignina og í desember hafi staðið til að aðilar gerðu með sér húsaleigusamningum um fasteignina.

Drög að slíkum samningi hafi verið útbúin og dagsett 20. desember 2012 og hafi samningurinn átt að vera tímabundinn og gilda til 31. desember 2023. Strax næsta dag hafi hins vegar verið ákveðið að breyta fyrirkomulaginu þannig að Menningarmiðstöðin fengi afnotarétt af hluta hússins án endurgjalds og hafi þetta verið staðfest með samningi sem dagsettur er 21. desember 2012. Samtímis þessu hafi fyrri samningurinn verið feldur niður.

Afnotaheimildin ógildi húsaleigusamningin

Fyrri samningurinn var undirritaður og vottaður, en sá síðari var undirritaður af einum manni fyrir hönd hvors aðila og heldur Menningarsetrið því fram að sá samningur hafi verið dagsettur aftur í tímann og að sá sem undirritar samninginn fyrir þeirra hönd hafi ekki gert það fyrr en eftir að hann tók að starfa með Stofnun múslima. Menningarsetrið afhenti fyrri samninginn til þinglýsingar 22. janúar 2015.

Í úrskurði héraðsdóms segir að þar sem yfirlýsingin um afnotaheimild án endurgjalds sé gerð á eftir húsaleigusamningnum og var undirrituð af sömu aðilum, þá feli hún í sér að húsaleigusamningurinn falli úr gildi. Menningasetrinu hafi tekist að sanna að yfirlýsingin hafi verið útbúin löngu eftir dagsetninguna sem á henni er og að ekki sé óeðlilegt að eintak af ógiltum samningi sé varðveitt.

Oddgeir Einarsson lögmaður Menningarseturs múslima, segir í viðtali við mbl.is  að úrskurðurinn verði kærður til hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert