Er enn í sömu fötunum

Júlíanna Ósk segir óljóst hvort hún muni halda áfram að …
Júlíanna Ósk segir óljóst hvort hún muni halda áfram að klæðast sömu fötunum. Ljósmynd/ Úr einkasafni

Ár var liðið á miðvikudag frá því að Júlíanna Ósk Hafberg, nemi í fatahönnun setti sér það verkefni að klæðast sömu fötunum í einn mánuð. Mánuðurinn varð síðan þremur mánuðum og loks að ári og 368 dögum síðar er Júlíanna Ósk enn í sömu fötunum.

„Þetta var rosalega skrýtið og ég var aðallega hissa á hvað þetta leið hratt,“ segir Júlíanna Ósk um fataverkefni sitt og kveðst alveg hafa verið hætt að veita því einhverja sérstaka athygli. „Ég er eiginlega búin að vera að kvíða svolítið fyrir þessu, því ég veit ekki alveg hvert ég á að snúa mér í framhaldinu,“ segir hún og játar að hún sé enn í sömu fötunum.

Hún hélt þó upp á áfangann þegar árinu var náð. „Ég hélt upp á þetta með því að fara út að borða og fá mér kokteil með vinkonum mínum. Þetta er líka ágætlega skemmtilegur og stór áfangi.“

Spurð  hvaða viðbrögð hún sé að fá við því að árið sé liðið, segist hún verða vör við áhuga hjá fólki hvað hún geri næst. „Fólk virðist líka vera spennt fyrir því að ég klæði mig upp í eitthvað allt annað.“

Breytt viðhorf til fatnaðar og neysluhyggju

Júlíanna Ósk segir að viðhorf sitt til fatnaðar og neysluhyggju hafi tekið miklum breytingum sl. ár og spurð hvort þetta valdi engum árekstrum í námi hennar í fatahönnun, viðurkennir hún að svo sé. „Þetta er búið að hafa mikil áhrif á mig og mitt nám, en þetta kviknaði náttúrlega líka út frá mér og mínu námi.“  

Sl. ár sé hún búin að skoða þessi mál vel, auk þess að skrifa BA ritgerð um meðvitaða neysluhyggju innan fatabransans.  „Ég var svo einmitt að skila af mér útskriftarverkefninu, fatalínu sem snýst algjörlega um allar þær niðurstöður sem ég hef komist að í minni tilraun sl. ár.“

Júlíanna Ósk segir fatalínuna byggja á sjálfbærni og þeirri hugsun að eiga færri flíkur og nýta þær betur. Flíkur sem séu breytilegar og hægt að aðlaga þeim sem flíkunum klæðist og því sem hann sé að fara að gera. „Þær eru viðsnúanlegar og það eru tvær framhliðar á öllum flíkunum. Þær eru allar úr annað hvort lífrænum eða endurvinnanlegum efnum og þær eru allar hugsaðar sem auðveldlega endurvinnanlegar eftir að fatahlutverki þeirra er lokið.“

Allar flíkurnar í fatalínu Júlíönnu Óskar eru viðsnúanlegar og hafa …
Allar flíkurnar í fatalínu Júlíönnu Óskar eru viðsnúanlegar og hafa tvær framhliðar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Lítið farið að sjá á skyrtunni

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort ekkert sé farið að sjá á skyrtunni sem Júlíanna Ósk hefur klæðst sl. ár. „Það er eiginlega svoítið magnað hvað lítið sér á henni,“ segir hún. „Eitt af því sem ég lærði af þessu var líka að passa betur upp á hlutina mína. Ef ég fékk blett í fötin eða eitthvað gerðist, þá varð ég bara að laga það. Skyrtan er ljós þannig að ég þurfti bara að bregðast hratt við ef eitthvað gerðist. Það eru engir blettir í henni í dag sem eru fastir.“  Þrjú göt hafi komið á skyrtuna sl. ár, en þau hafi hún lagað og skyrtunni megi nota mun lengur.  

Júlíanna Ósk hyggst halda í framhaldsnám í haust og er komin inn í skóla í Danmörku og horfir nú aðeins út fyrir fatahönnunina. Skólinn heitir Kaos Pilot og er í Árósum og námið er eins konar viðskipta-frumkvöðla-verkefnisstjórnun að hennar sögn. „Þeir eru að fókusa á stærri hluti, eins og ég var að reyna að gera með minni fatalínu.“

Spurð hvort hún geri ráð fyrir að klæðast sömu fötum áfram dag hvern í nánustu framtíð, segir hún óljóst hvort svo verði. „Ég fékk sumarvinnu á ylströndinni í Nauthólsvík, þannig að ég veit ekki hvort það gengur. Það verður bara að koma í ljós, en það er alveg öruggt mál að ég verð í þessum sömu fötum morgun.“

Frétt mbl.is: Var í sömu fötunum í þrjá mánuði

Hér má sjá blogg Júlíönnu um verkefnið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert