Viktor Örn keppir í Bocuse d'Or

Viktor að störfum.
Viktor að störfum.

Viktor Örn Andrésson, Kokkur ársins 2013, keppir fyrir Íslands hönd í Evrópuforkeppni Bocuse d'Or matreiðslukeppninnar í Búdapest 10.-11. maí nk. Viktor verður meðal fulltrúa 20 Evrópuþjóða sem keppa um tólf sæti í aðalkeppninni sem fram fer í Lyon í Frakklandi í janúar 2017.

Í tilkynningu segir m.a. að Viktor stefni á fyrstu fimm sætin í forkeppninni og verðlaunapall í aðalkeppninni. Hann var valinn matreiðslumaður Norðurlanda árið 2014.

„Undirbúningur hefur staðið yfir mánuðum saman og rúmt tonn af eldhúsáhöldum og tækjum hefur verið sent til Búdapest. Þjálfari Viktors er Sigurður Helgason, Bocuse d´Or keppandi 2015, og aðstoðarmaður er Hinrik Örn Lárusson.“

Bocuse d'Or matreiðslukeppnin hefur verið haldin frá 1987 en fyrsti íslenski keppandinn, Sturla Birgisson, tók þátt 1999. Íslendingar hafa ávallt verið einhvers staðar í níu efstu sætunum en bestum árangri náði Hákon Már Örvarsson árið 2001, þegar hann vann til bronsverðlauna.

Hægt er að fylgjast með keppninni á vefsíðunni www.bocusedor.com.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert