Altjón í eldsvoða í nótt

Slökkviliðsmenn að störfum. Myndin er úr safni og tengist ekki …
Slökkviliðsmenn að störfum. Myndin er úr safni og tengist ekki efni fréttarinnar. mbl.is/Eggert

Fjölmennt slökkvilið er enn að störfum við Vesturvör í Kópavogi þar sem mikill eldur kom upp í húsnæði lyftaraþjónustunnar Hraðbergs í nótt. Slökkviliðsmönnum tókst að ráða niðurlögum eldsins á fimmta tímanum í nótt. Ekki er vitað um upptök eldsins en altjón varð hjá fyrirtækinu.

Tilkynning barst um eld í húsnæði Hraðbergs við Vesturvör 30B í Kópavogi kl. 3:08 í nótt, að sögn Sigurbjörns Guðmundssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Allt tiltækt lið slökkviliðsins var sent á staðinn og aukamannskapur síðan kallaður út. Allt í allt voru um fjörutíu slökkviliðsmenn kallaðir út vegna eldsins.

Einn maður var í húsnæði Hraðbergs þegar eldurinn kom upp. Sigurbjörn segir að hann hafi orðið var við brunavarnakerfi og náð að koma sér út ómeiddum. Að minnsta kosti þrjú önnur fyrirtæki eru í húsinu, ferðaþjónustufyrirtækið HL Adventures, Ljósvakinn og AFA JCDecaux Ísland. 

„Það eru skemmdir á þeim bilum líka, aðallega reyk- og vatnsskemmdir, en það er altjón hjá Hraðbergi. Húsið er nú nýlegt og vel byggt þannig að eflaust verður nú gert við það en allt innanstokks er brunnið enda er mikill eldsmatur í svona lyftaraþjónustu; rafgeymar, gaskútar og alls konar góss,“ segir varðstjórinn.

Sigurbjörn segir að vel hafi gengið að slökkva eldinn. Það hafi tekist þegar klukkuna vantaði um stundarfjórðung í fimm í morgun. Slökkviliðsmenn eru nú að reykræsta og taka saman.

„Eldurinn var það mikill þegar við komum á staðinn að það var að mestu leyti slökkt utan frá með nægu vatni. Þá er bara verið að kæla, slökkva í gæðum og svoleiðis,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert