Lítur mansalsmálið alvarlegum augum

Lögreglustöðin Hverfisgötu
Lögreglustöðin Hverfisgötu mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Stjórn Félags heyrnarlausra harmar mansalsmálið sem fjallað hefur verið um í tengslum við félagið í fjölmiðlum í dag og lítur það alvarlegum augum. Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að lögreglan hefði til rannsóknar mansalsmál rússneskrar konu sem seldi happdrættismiða fyrir Félag heyrnarlausra.

Í yfirlýsingu félagsins segir að sl. mánudag hafi fjáröflunarstjóri Félags heyrnarlausra tjáð framkvæmdastjóra félagsins að lögreglan væri að rannsaka mál sér tengt og að lögreglan hafi spurt um dvöl erlendra gesta hjá honum.

„Þegar í stað var ákvörðun tekin um að senda viðkomandi starfsmann í leyfi á meðan málið er til rannsóknar hjá lögreglu. Viðbrögð stjórnar félagsins munu síðan ráðast af því hver niðurstaða rannsóknar lögreglu verður,“ segir í yfirlýsingunni. Stjórn félagsins treysti lögreglu til að vinna að rannsókn málsins og muni aðstoða lögreglu við rannsóknina eftir bestu getu.  

„Í áratugi hefur starf Félags heyrnarlausra verið byggt á frjálsum framlögum og fjáröflun, t.d. happdrættissölu. Allir sölumenn fá að lágmarki greidd sölulaun sem nema 25% af seldum miðum. Komi til aukakostnaður, t.d. gistikostnaður vegna söluferða úti á landi, hefur félagið jafnframt greitt þann kostnað.“ Þetta eigi líka við um erlenda heyrnarlausa einstaklinga sem dvelji tímabundið á Íslandi og óski eftir að selja happdrættismiða fyrir félagið.

„Ef brotið er á rétti heyrnarlauss fólks hefur félagið veitt öllum þeim sem til þess hafa leitað aðstoð og leiðbeint  þeim um rétt sinn.“

Rannsaka mansalsmál tengt Félagi heyrnarlausra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert