MR slitið í 170. sinn

Frá brautskráningunni í dag.
Frá brautskráningunni í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Menntaskólinn í Reykjavík útskrifaði í dag stúdenta frá skólanum í 170. sinn, og fór athöfnin fram í Háskólabíói. Að þessu sinni voru brautskráðir alls 206 stúdentar, 92 piltar og 114 stúlkur. Þar af voru 8 úr fornmáladeildum, 27 úr nýmáladeildum, 47 úr eðlisfræðideildum og 124 úr náttúrufræðideildum.

Stefanía Katrín J Finnsdóttir var dúx en hún hlaut einkunnina 9,67. Fjölmargir aðrir hlutu verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur.

Yngvi Pét­urs­son, rektor skólans, kom víða við í ræðu sinni. Hrósaði hann nem­end­um fyr­ir blóm­legt fé­lags­líf og frá­bær­an ár­ang­ur í hinum ýmsu keppn­um en MR sigraði í spurn­inga­keppn­inni Gettu bet­ur, og var það 20. sigur skólans í 30 ára sögu keppninnar. Þá sigraði lið MR einnig í rökræðukeppninni MORFÍS.

Þá vék hann að baráttu skólans við yfirvöld og þeim þrengingum sem skólinn stendur frammi fyrir þegar nám til stúdentsprófs verður stytt úr fjórum árum í þrjú. Sagði hann að hagur nemenda þyrfti að njóta forgangs í ákvörðun um menntun en ekki að eingöngu sé litið til hagræðingar í rekstri. „Slíkur sparnaður mun nokkuð örugglega á endanum reynast okkur dýrkeyptur.“

Fjöl­marg­ir eldri stúd­ent­ar frá skól­an­um voru viðstadd­ir at­höfn­ina eins og venja er. Elsti afmælisstúdentinn var Rögnvaldur Þorkelsson sem varð stúdent 1936 og er því 80 ára stúdent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert