Tefldu í grænlensku fangelsi

Nigel Short teflir í grænlensku fangelsi.
Nigel Short teflir í grænlensku fangelsi. Ljósmynd/ Hrókur

Flugfélagshátíð Hróksins í Nuuk lauk á laugardag með einvígi Steffen Lynge, lögreglumanns, tónlistarmanns og eins fremsta skákmanns Grænlands, og Hrafns Jökulssonar, forseta Hróksins. Undanfarna viku hefur höfuðborg Grænlands iðað af skáklífi og liðsmenn Hróksins farið víða að útbreiða fagnaðarerindi skáklistarinnar, gleðinnar og vináttunnar.

Í fréttatilkynningu Hróksins segir Hrafn Jökulsson að það hafi verið einstakur heiður að standa að einvígi Jóhanns Hjartarsonar og Nigels Shorts í Nuuk: „Þeir eru goðsagnir í skáksögunni og mikil forréttindi að hafa staðið að Grænlandsheimsókn þeirra. Báðir eru þeir snillingar og auk þess með djúpan skilning á einkunnarorðum Hróksins: Við erum ein fjölskylda.“

Hrafn Jökulsson og Pétur Ásgeirsson sendiherra tefla í Nuuk-firði.
Hrafn Jökulsson og Pétur Ásgeirsson sendiherra tefla í Nuuk-firði. Ljósmynd/ Hrókurinn

Einvígi Jóhanns og Shorts lauk með sigri Englendingsins eftir æsispennandi viðureign, en Hrafn segir að úrslitin séu algjört aukaatriði. Megintilgangurinn sé að breiða út gleði og vináttu. Meðal annars var farið í fangelsið í Nuuk og athvarf fyrir heimilislausa auk þess sem Hrókurinn efndi til fleiri viðburða sem fyrst og fremst höfðu það markmið að skapa gleði og bjartsýni. Þá fékk skákfélag höfuðstaðarins mikinn fjölda taflsetta að gjöf frá Flugfélagi Íslands sem dreift verður í skóla borgarinnar.

Þetta var þriðja heimsókn Hróksins til Grænlands á þessu ári og fram undan eru a.m.k. fjórar heimsóknir til viðbótar. Alls hafa liðsmenn Hróksins farið oftar en fimmtíu sinnum til Grænlands, síðan skáklandnámið hófst árið 2003.

Fjöldi fólks tefldi í Nuuk Center.
Fjöldi fólks tefldi í Nuuk Center. Ljósmynd/ Hrókurinn.

Hrafn segir að þakklæti sé efst í huga Hróksmanna eftir vel heppnaða Flugfélagshátíð: „Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja hjálpuðu okkur við að gera þetta allt saman mögulegt. Það sem gerði þessa hátíð núna svo ánægjulega að meðal þátttakenda voru fremstu skákmenn heims, ráðamenn hér á Grænlandi, börnin í Nuuk, fangar, heimilislaust fólk og ótal vinir aðrir. Gleðin og vináttan eru okkar leiðarljós, og við þökkum öllum þeim sem gerðu dásamlega hátíð að veruleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert