„Einhverjir kallar í spilltum samtökum“

Brynhildur Pétursdóttir.
Brynhildur Pétursdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mansal var tilefni fyrirspurnar Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar, til Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra á Alþingi í dag. Þingmaðurinn benti meðal annars á að Ísland hefði fengið lægsta einkunn af Norðurlöndunum í þeim efnum í skýrslu frá Global Slavery Index sem væri óviðunandi. Bað hún um viðbrögð ráðherra við því.

„Mér finnst þetta vera mjög sláandi. Við höfum heyrt ýmis dæmi í fréttum af mansali á Íslandi. Þegar skýrslan er skoðuð kemur í ljós að Ísland fær einkunnina B sem er lægsta einkunn Norðurlandaþjóða og með þeim lægstu í Evrópu. Ráðherra hlýtur að taka þetta mjög alvarlega þannig að mig langar til að spyrja hvað sé verið að gera í þessum málum og hvernig eigi að bregðast við. Við getum ekki sætt okkur við að vera á þessum stað.“

Brynhildur sagði fyrirhugað heimsmeistaramóti í knattspyrnu í Katar árið 2022 einnig valda sér miklum áhyggjum. „Þar er massíft þrælahald í gangi og mótsstaðurinn var ákveðinn eftir að einhverjir kallar í spilltum samtökum ákváðu að það væri góð hugmynd. Nokkrir leikmenn í danska og norska landsliðinu hafa stigið fram og gagnrýnt þetta. Ég hlýt að spyrja: Ætlar Ísland að taka þátt í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í Katar 2022?“

Fræðsla um mansal skipt miklu máli

Eygló sagði að unnið hafi verið gegn masali hér á landi samkvæmt ákveðinni aðgerðaáætlun. „Það sem hefur verið að gerast fyrst og fremst á undanförnum vikum og mánuðum er að ég held að samfélagið allt hafi verið að útvíkka skilgreininguna á mansali og átta sig á því. Áður voru menn mjög mikið að horfa á samspil mansals og vændis. Hins vegar höfum við gert okkur betur grein fyrir því að þarna undir geta fallið margvísleg störf sem við höfum verið að huga að.“

Þar hefði fræðsla sem stjórnvöld hefðu staðið fyrir í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins skipt miklu máli. „Þar hefur líka skipt mjög miklu máli gott samstarf á milli verkalýðsfélaganna, Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins þar sem menn hafa farið með virkari hætti inn á vinnustaði. Við höfum átt í samtali við verkalýðsfélögin sem snýr almennt að stöðunni á vinnumarkaðnum og hvernig við viljum skilgreina sjálfboðavinnu í ljósi mála sem hafa verið að koma upp undanfarið.“

Hvað heimsmeistaramótið í Katar varðaði sagði ráðherrann að þátttaka Íslands á íþróttamótum hafi oft kallað á skiptar skoðanir og nefndi Ólympíuleikana í Rússlandi sem dæmi. „Ég hef sjálf hins vegar ekki í hyggju að mæta á þetta mót.“

Eygló Harðardóttir.
Eygló Harðardóttir. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert