Fari ekki sömu leið og útrásarvíkingar

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Kristinn

Hjólreiðafólk á ekki að fara sömu leið og útrásarvíkingar; gera eitthvað, líta fram hjá siðferðinu og segja síðan að það hafi ekki verið gegn lögunum.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Einars Magnúsar Magnússonar, sérfræðings í kynningarmálum hjá Samgöngustofu, á málþingi um göngu- og hjólastíga í Salnum í Kópavogi í morgun.

Erindi hans bar yfirskriftina Hjólað á gangstígum – Hverjar eru grundvallarreglurnar? en honum var falið að ramma inn þá reglur sem gilda á gangstígum. Fór hann bæði yfir lög og siðareglur. Málþingið var á vegum Kópavogsbæjar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. 

Hjólreiðafólk er gestir

Samkvæmt umferðarlögum er meginreglan sú að hjólreiðafólk skuli hjóla á akbraut og hjólreiðastíg. Ekki er gerður greinarmunur á stofnbrautum og öðrum akbrautum. Í lögunum segir þó að heimilt sé að hjóla á gangstíg valdi það gangandi vegfarendum hvorki hættu né óþægindum. Sagði Einar Magnús heyra til undantekninga í heiminum að þessum tveimur vegfarendahópum sé blandað saman á einum stíg.

Hjólandi vegfarendur eiga ætíð að víkja fyrir gangandi vegfarendum og gæta ítrustu varúðar. Hjólandi vegfarendur eru í raun gestir á gangstétt- og gangstígum. Þá eru hjólandi vegfarendur á heimavelli á hjólreiðastígum en þar þarf einnig að sýna varúð, sagði hann.

Vísaði Einar Magnús í 4. gr. umferðarlaga þar sem kemur fram að vegfarandi eigi vitanlega ekki að standa svo fast á forgangi sem hann hefur að það valdi hættu eða slysi. Sagði hann að sumir þeirra sem fara um samgöngukerfið séu hámenntaðir bílstjórar en hagi sér ekki eins og ökumenn þegar þeir eru á hjóli; stöðva á rauðu ljósi og við stöðvunarskyldu.

Hjólreiðafólk hvorki aurskriða né flóðhestur

Einar Magnús vísaði einnig í svokallaðar siðareglur hjólreiðafólks og nefndi þar fyrst að hjólreiðafólk eigi að halda sig hægra megin á stígum.

Þar segir einnig að ef yfirborðsmerkingar sýna með skýrum hætti að ætlast sé til þess að hjólað sé á afmörkuðum hluta gangstígnum skal fara eftir því. Þá á hjólreiðafólk að eiga samskipti; það er ekki stanslaus aurskriða eða flóðhestur, sagði Einar Magnús. 

Þá sagði hann einnig að hjólreiðafólk eigi að láta vita af sér tímanlega og engin afsökun sé fyrir því að nota ekki bjöllu. Rifjaði hann upp nokkrar afsakanir sem hann sagðist hafa heyrt fyrir því að nota ekki búnaðinn, þar á meðal að sumum þætti þeir vera ókurteisir ef þeir notuðu bjölluna.

Enn vísaði Einar Magnús í siðareglurnar og sagði að hjólareiðafólk ætti að hægja á sér þegar það mætir einhverjum eða er að fara fram úr. Ef það er í kappakstri á að gera það á öruggum svæðum og brautum. Þá á það að setja sig í spor þess sem það er að mæta eða fara fram úr. Fyrst og fremst eigi að koma fram við aðra eins og við viljum að aðrir komi fram við okkur.

Frétt mbl.is: Oftast kvartað yfir hjólreiðafólki

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert