Sjómenn undirrita nýjan samning

mbl.is/Sigurður Bogi

Kjarasamningur var undirritaður í dag á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en um er að ræða framlengingu á núgildandi samningi með þeim breytingum að kauptrygging hækkar frá 1. júní um 23% og verður 288.000. Í samningslok 31. desember 2018 verður kauptryggingin kr. 310.000. Aðrir kaupliðir hækka um 17,1% á samningstímanum. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Sjómannasambandsins.

Fram kemur að nýtt olíuverðsviðmið taki gildi þannig að styttra sé í að skiptahlutfallið hækki. Mælieiningar skipa verði áfram brúttólítrar til að ákveða skiptaprósentur í samningnum. Nýr kafli sé um frystitogara vegna fjölgunar í áhöfnum. Þá sé vilji hjá fjármálaráðherra til að hluti fæðispeninga sjómanna verði skattfrjálsir. Tekjuáhrifin eru sögð um hálfur milljaður króna en frumvarp þess efnis sé komið fram. Nánari útfærsla sé í vinnslu. Og að síðustu en ekki síst er bókun sem fylgir samningnum um athugun á mönnun fiskiskipa og hvíldartíma íslenskra sjómanna sem Jón Bernódusson hjá Samgöngustofu mun hafa forgöngu um. Sú könnun mun hjálpa okkur í slagnum við SFS um fækkun í áhöfnum,“ segir enn fremur.

Enn fremur sé bókun um endurritun samningsins alls fyrir lok samningstímans. Ríkissáttasemjari muni stýra þeirri vinnu verði samningurinn samþykktur. Þar sé búið að skilgreina hvað eigi að ræða um og tímasetja lok vinnunnar við hvern lið. 

„Sjómenn, við leggjum þetta í ykkar dóm. Þetta varð lendingin að þessu sinni. Lengra var ekki komist án átaka. Að mínu mati eru bókanirnar í samningnum mikils virði einfaldlega vegna þess að útgerðarmenn hafa ekki áður ljáð máls á að tala við okkur um stóru málin, fiskverð og nýsmíðaálagið svo eitthvað sé nefnt. Einnig mun könnun á mönnun og hvíldartíma verða til þess að hægt sé að ræða þessi mál af einhverju viti. Nú verður samningurinn kynntur næstu vikur úti í félögunum. Atkvæðagreiðsla getur hafist í næstu eða þarnæstu viku og henni mun ljúka 8. ágúst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert