Mátti tjá sig um umsóknarferlið

Útlendingastofnun.
Útlendingastofnun. mbl.is/Kristinn

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, fór ekki út fyrir heimildir sínar í útvarpsviðtali í Ríkisútvarpinu árið 2012 þannig að brotið hafi verið gegn lögum um persónuupplýsingar, samkvæmt nýjum úrskurði Persónuverndar.

Hinn 22. apríl 2015 barst Persónuvernd kvörtun frá foreldrum stúlku sem hafði sótt um dvalarleyfi hér á landi vegna ummæla forstjóra Útlendingastofnunar, sem féllu í viðtali í síðdegisútvarpi Ríkisútvarpsins árið 2012. Nánar tiltekið var kvartað yfir því að í viðtalinu hefði forstjórinn fjallað ítarlega um umsóknarferli stúlkunnar.

Með því hefðu verið brotið gegn friðhelgi þeirra.

Umrætt útvarpsviðtal var tekið í kjölfar viðtals við fjölskylduvin kvartenda og dóttur þeirra, sem hafði birst á sama miðli degi fyrr.

Mikið fjallað um málið í fjölmiðlum

Í úrskurði Persónuverndar segir að fyrir liggi að í aðdraganda viðtalsins hafði mikið verið fjallað í fjölmiðlum um mál dóttur kvartenda hjá Útlendingastofnu og höfðu meðal annars kvartendur tjáð sig um það, þar á meðal í ítarlegri umfjöllun á vefnum pressan.is daginn fyrir útvarpsviðtalið. Höfðu því umtalsverðar upplýsingar um stöðu og feril málsins ratað í opinbera umræðu. Verði ráðið af viðtalinu að forstjóri Útlendingastofnunar hafi með því verið að bregðast við þeirri umræðu til þess að útskýra málsmeðferð stofnunarinnar.

Játa verði stjórnvöldum nokkurt svigrúm til þess að nota málaskrár sínar til að bregðast við spurningum sem fjölmiðlar beina að þeim, þar á meðal til að veita svör sem, eftir atvikum, kann að vera hægt að rekja til tiltekinna einstaklinga, svo sem í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar.

Jafnframt verði þó að leggja áherslu á að við slíka vinnslu persónuupplýsinga sé ekki farið út fyrir meðalhófskröfur, auk þess sem farið sé að þagnarskylduákvæðum.

„Að öllu virtu telur Persónuvernd að Útlendingastofnun hafi ekki farið út fyrir heimildir sínar í umræddu útvarpsviðtali þannig að brotið hafi verið gegn réttindum kvartenda samkvæmt lögum nr. 77/2000,“ segir í úrskurðinum.

Úrskurður Persónuverndar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert