Ferðalangar komi heilir heim

Smári Sigurðsson, formaður slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Smári Sigurðsson, formaður slysavarnafélagsins Landsbjargar. mbl.is/Þórður

Í dag hófst hálendisvakt björgunarsveitanna í ellefta skipti þegar fyrstu hópar sjálfboðaliða héldu til fjalla. Tveir hópar verða að Fjallabaki í Landmannalaugum, einn í Nýjadal á Sprengisandi og einn í skálanum í Dreka við Öskju, norðan Vatnajökuls.

Lagt var af stað frá Olís í Norðlingaholti síðdegis í dag.

Verða sjálfsboðaliðar björgunarsveitanna því til taks á hálendinu næstu mánuðina. Straumur ferðafólks þangað verður sífellt meiri og hefur því þörfin á hálendisvaktinni síst minnkað, að sögn Smára Sigurðssonar, formanns slysavarnafélagsins Landsbjargar.

„Við höfum séð mikinn árangur af starfinu okkar,“ segir Smári í samtali við mbl.is, „með upplýsingunum sem við veitum ferðafólki og forvörnum og einnig það að vera til taks og nær vettvangi ef óhöpp koma upp. En stóra verkefnið er að geta leiðbeint og upplýst þessa gesti okkar sem sumir hverjir þekkja kannski ekki aðstæður eins vel og við.“

Hann segir verkefnið þó ekki aðeins snúast um erlenda ferðamenn. Íslendingar séu ekki síður á ferðinni og þá ekki síst á hálendinu.

Hver hópur á vakt í viku

Þrír sjálfboðaliðar eru að lágmarki í hverjum hóp, en Smári segir að gerðar séu heilmiklar kröfur til fólksins, svo sem um þekkingu, reynslu og kunnáttu. Hver hópur verður á vakt í viku í senn, fyrir utan reyndar hópana sem héldu til fjalla í dag, en þeir verða í tíu daga.

Hálendisvaktinni lýkur síðan í ágúst eða september. „Við höldum lengst út að Fjallabaki, þar lifir umferðin lengur. Við verðum fram yfir miðjan ágúst en þá fer hálendistraffíkin að róast og aðstæður verða betri. Það fer að þorna meiri og leysing úr jöklum minnkar og ár og lækir verða jafnframt viðráðanlegri. Þetta helst dálítíð í hendur,“ segir hann.

Mörg verkefni og ærin

Síðasta sumar var sinnt tæplega tvö þúsund verkefnum og var um fjögur þúsund ferðamönnum liðsinnt í þeim verkefnum. Verkefnin eru því fjölmörg og ærin en auðvitað miskrefjandi. Smári segir að af þessum tvö þúsund verkefnum hafi um 500 verið alvarleg tilfelli. „Verkefnin eru af ýmsum toga og það eru ekki alltaf einhver stórslys eða óhöpp, sem betur fer,“ nefnir hann.

Markmiðið með hálendisvaktinni sé að upplýsa og leiðbeina ferðafólki og koma þá í veg fyrir óhöpp. „Við reynum að sjá til þess að allir ferðalangar njóti og komi heilir heim. Það er stóra markmiðið. Og að vera til taks ef eitthvað bregður út af. Við eigum í mjög góðu samstarfi við lögreglu, neyðarlínuna, skálaverði og þjóðgarðsverði. Menn eru bara allir saman í einu liði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert