Hvalnesbirnan reyndist smituð af tríkínum

Krufning leiddi í ljós að dýrið var tríkínusmitað.
Krufning leiddi í ljós að dýrið var tríkínusmitað. Ljósmynd/ Keldur

Birnan sem var felld við Hvalnes á Skaga laugardagskvöldið 16. júlí síðastliðinn var smituð af tríkínum, að sögn dr. Karls Skírnissonar, dýrafræðings á Keldum. Því er ljóst að þrír af fimm hvítabjörnum sem hafa verið felldir hér frá árinu 2008 hafa verið smitaðir af sníkjudýrinu.

Karl er staddur í Finnlandi á alþjóðlegri ráðstefnu sníkjudýrafræðinga. Þar greindi franskur vísindamaður frá þremur Frökkum sem nýlega greindust með væg einkenni tríkínusmits eftir að hafa neytt hvítabjarnarkjöts í Austur-Grænlandi í mars síðastliðnum. Þeir borðuðu um 200 grömm af kjötinu hver um það bil þremur vikum áður en einkennin voru greind. Frakkarnir léttsteiktu kjötið þannig að það var bleikt í sárið þegar þess var neytt. Heimamenn suðu kjötið áður en þeir neyttu þess. Grænlenskur veiðimaður skaut björninn, sem vó um 400 kíló, á Scoresbysunds-svæðinu.

Fram kom í erindinu að tríkínusmit væri vel þekkt í Grænlandi. Fyrir 60 árum smituðust margir samtímis af tríkínum. Síðan þá hafa einungis einstök tilvik um tríkínusmit í fólki verið staðfest. Rannsókn sem gerð var í Ammassalik, þar sem þorpið Kulusuk er, sýndi að blóðprufur um 20% þeirra manna sem rannsakaðir voru gáfu jákvæða svörun um tríkínusmit. Rannsókn á refum á sama svæði sýndi að um 35% refastofnsins voru með tríkínur og sama gilti um 32-41% hvítabjarna á svæðinu. Greint var frá niðurstöðum þessarar rannsóknar árið 1995. Franski vísindamaðurinn sagði að bjarnarkjöt ylli oft tríkínusmiti í ferðamönnum. Hann og samstarfsmenn hans vita um 31 tilfelli smits í ferðamönnum frá árinu 1995, þar af voru 27 hinna sýktu Frakkar.

Fyrsta staðfesta tilvik um tríkínur hér var í hvítabirni sem var felldur á Hornströndum 20. júní 1963. Kjötið var boðið til sölu á Ísafirði og fengu færri en vildu. Rannsókn leiddi í ljós að í kjötinu var krökkt af tríkínum. Ekki er vitað til að fólki hafi orðið meint af átinu, enda hafa tríkínurnar líklega drepist við suðu. 22

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert