Landaði draumastarfinu

Jóhann Ólafur Sigurðsson upplifði mikið ævintýri með íslenska landsliðinu á …
Jóhann Ólafur Sigurðsson upplifði mikið ævintýri með íslenska landsliðinu á EM í Frakklandi. mbl.is/Freyja Gylfa

Jóhann Ólafur Sigurðsson skrifaði fréttir um íslenska landsliðið í knattspyrnu inn á vef UEFA á meðan Evrópumótið í knattspyrnu stóð yfir í Frakklandi. Jóhann er fv. markvörður Selfoss og spilaði m.a. með Jóni Daða Böðvarssyni í 1. deildinni fyrir aðeins nokkrum árum.

Jóhann kláraði masterspróf í íþróttafjölmiðlafræði í Sheffield í Englandi þar sem hjólin fóru að snúast og áður en hann vissi af var hann staddur í Annecy að fara að taka á móti landsliðinu þar sem það gerði sig klárt fyrir komandi átök.

„Ég kláraði námið í fyrra og varð vinur eins ritstjóra hjá UEFA-vefnum á samfélagsmiðlinum Linkedin. Þar setti ég greinarnar mínar sem ég var að skrifa í mastersnáminu mínu. Ég sá að hann var að skoða þær greinar. Á sama tíma var sá að leita að manni til að fylgjast með íslenska landsliðinu og hafði samband við Ómar Smárason hjá KSÍ og Ómar gaf mér góð meðmæli. Skömmu síðar var ég kominn á EM.“

Lokaverkefnið hitti í mark

Jóhann bættist við fjölmiðlaflóruna í Frakklandi sem skilaði fréttum af íslenska liðinu til Íslands og umheimsins. Viðtöl hans við íslenska leikmenn fóru til sjónvarpsrétthafa víða um heim. „Ég var að vonast eftir því að komast á EM í kjölfar námsins og var í raun alveg sama hversu smátt það væri þannig að það var svolítið magnað að lenda í þessum aðstæðum. Ég trúði því varla. Ég fór inn í námið með það að markmiði að skrifa eins mikið um íslenskan fótbolta og ég gat og fékk ágæt viðbrögð víða að úr heiminum. Ég ætlaði að reyna að fá eitthvað tengt EM og lokaverkefnið mitt fjallaði um þróun íslenskrar knattspyrnu í tímaritaútgáfu. Það kom mér á EM og ég fékk því allt sem ég vildi út úr náminu.“

Það eru ekki margir íþróttafréttamenn á Íslandi jafnsprenglærðir og Jóhann og því eðlilegt að spyrja hvers vegna hann sé ekki að vinna við íþróttafréttamennsku. „Þegar ég lauk námi sendi ég inn umsóknir en svo kom þetta upp og ég gat ekki sagt nei þannig að ég setti umsóknir á ís í bili.“

Fjórir voru í starfsliði í kringum Jóhann en UEFA gerði miklar kröfur um að vandað yrði til verka. „Þeir sem voru í kringum mig höfðu á orði að andrúmsloftið væri þægilegt á milli landsliðsins og blaðamannanna og allt öðruvísi en þeir þekktu. En þetta var einstakt ævintýri og í raun óraunverulegt.“

Jóhann Ólafur tekur hér viðtal við Lars Lagerbäck ásamt fleiri …
Jóhann Ólafur tekur hér viðtal við Lars Lagerbäck ásamt fleiri íþróttafréttamönnum. Jóhann skrifaði fréttir af Íslandi á vef UEFA. Ljósmynd/KSÍ
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert