Vísindamenn fylgjast með Kötlu

Horft af Mýrdalssandi á Kötluöskjuna sem er undir Mýrdalsjökli en …
Horft af Mýrdalssandi á Kötluöskjuna sem er undir Mýrdalsjökli en eldstöðvakerfi hennar nær alveg til Eldgjár norðaustan við jökulinn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það hafa verið smá hlaup í Múlakvísl undanfarnar vikur en það er orðið árvisst að það hleypur úr jarðhitakötlunum í Kötlu. Það er samt ástæða til að fylgjast með því,“ segir Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur en jarðskjálftavirkni í Kötluöskjunni hefur aukist nú í júlí og vatnshæð og rafleiðni aukist í Múlakvísl.

Nokkuð langt er liðið frá stóru Kötlugosi. „Síðasta stóra gos varð 1918 en í millitíðinni hafa orðið þrír atburðir sem benda til þess að gos hafi orðið undir jöklinum. Fyrst 1955, síðan 1999 og síðast 2011 þegar hlaup kom í Múlakvísl og tók niður brúna. Allir þessir atburðir eru svipaðir. Það fylgdi þeim skjálftavirkni, órói og hlaup niður árnar. Það eru vísbendingar um að í þessum tilvikum hafi orðið smá gos undir jöklinum sem náðu ekki í gegnum jökulinn enda er hann víða býsna þykkur og það þarf stór gos til að ná upp í gegn,“ segir Páll.

Hann segir óvenjulegt að eldstöðvar gjósi með reglulegu millibili og því sé ekki rétt að tala um að Katla sé komin á tíma.

„Katla sýndi reglusemi síðustu þrjú hundruð ár en þá komu stærri gos um 20. og 60. ár hverrar aldar,“ segir Páll en stór gos urðu í Kötlu 1625, 1660, 1721, 1755, 1823, 1860 og 1918. „Þessi reglusemi varð til þess að í kringum 1960 áttu menn von á stóru Kötlugosi en það gos er ekki ennþá komið. Eldstöðvar eru ólíkindatól,“ segir Páll.

Rafleiðni góð vísbending

Páll segir rafleiðni vatnsins gefa góða vísbendingu um það hversu mikið af jarðhitavatni sé í Múlakvísl. „Með rafleiðnimælingum er verið að finna hversu mikið af uppleystum jónum er í vatninu og ef það er mikið af þeim er það vísbending um að jarðhitavatn sé í ánni. Venjulegt vatn í jökulám er tilkomið vegna bráðnunar á yfirborðinu en þar að auki er bráðnun vegna jarðhitans undir jöklinum og það vatn er oft meira leiðandi þar sem meira er af uppleystum efnum í jarðhitavatninu,“ segir Páll en sjálfvirk mælitæki mæla rafleiðni vatns í Múlakvísl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert