Íslensk flugfélög með þeim bestu og verstu

Icelandair var á lista Telegraph yfir bestu flugfélögin til styttri …
Icelandair var á lista Telegraph yfir bestu flugfélögin til styttri ferða. mbl.is/Árni Sæberg

Vefrit breska dagblaðsins Daily Telegraph birtir í dag nokkra lista yfir bestu og verstu flugfélögin og má finna íslensku flugfélögin Icelandair og WOW air á listunum. WOW air nýtur þar þess vafasama heiðurs að vera á lista yfir verstu flugfélögin á meðan Icelandair er á lista yfir bestu flugfélögin fyrir styttri ferðir.

Daily Telegraph  tók saman lista yfir þau flugfélög sem fengu bestu og verstu dómana á TripAdvisor, auk þess að birta einnig eigin árlega lista yfir bestu flugfélögin í lengri og styttri flugferðum. Listi Telegraph byggist á kosningu lesenda blaðsins og tóku 75.000 manns þátt í kosningunni.

Icelandair er í þriðja sæti lista Telegraph yfir bestu flugfélögin fyrir styttri ferðir og kemur þar á hæla British Airways og Swiss. Neðar á listanum er að finna flugfélög á borð við KLM, Lufthansa og EasyJet. 

Emirates, Singapore Airlines og Air New Zealand tróna hins vegar á toppi lista Telegraph yfir bestu flugfélögin í lengri ferðum.

Samsettur listi TripAdvisor var öllu flóknari og engin aðgreining er þar eftir lengd ferða. Til að gefa listanum ákveðið vægi nær niðurröðun Telegraph á þeim flugfélögum sem hafa fengið umfjöllun á TripAdvisor aðeins til þeirra flugfélaga sem hafa fengið fleiri en 400 umfjallanir.

Ekkert íslenskt flugfélag var á TripAdvisor-listanum yfir bestu flugfélögin og það kemur lítið á óvart að Emirates, Singapore Airlines og Air New Zealand verma þrjú efstu sæti listans. Emirates var eina flugfélagið með fullar fimm stjörnur og aðeins 16 flugfélög fengu 4,5 stjörnur af fimm mögulegum.

Á listanum yfir verstu flugfélögin voru þrjú sem fengu innan við þrjá af fimm mögulegum og voru það Spirit, Frontier og Vueling, en 42,8% þeirra sem veittu Spirit umfjöllun gáfu flugfélaginu eina stjörnu, 40,3% Frontier og 34,8% Vueling.

Ellefu flugfélög til viðbótar fengu að meðaltali þrjá af fimm mögulegum og var WOW Air þar í fimmta sæti listans og höfðu 32,6% gefið WOW air eina stjörnu. Á listanum var einnig að finna airberlin sem 17,7% gáfu eina stjörnu og American Airlines sem 21,5% höfðu gefið eina stjörnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert