„Þetta er búið og gert“

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Eggert

„Hvað sem mönnum kann að finnast þá er þetta bara búið og gert,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, um þau ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, að ekki sé víst að þingkosningar fari fram í haust. Brynjar vísar þar til þess að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi ítrekað sagt að stefnt væri að haustkosningum.

„Það hafa auðvitað verið mismunandi skoðanir á því hvenær ætti að kjósa. Sumir vildu kjósa síðasta vor, aðrir vildu bíða til haustsins og enn aðrir kjósa næsta vor. En niðurstaðan varð bara þessi og við sitjum bara uppi með það hvort sem það þykir röng eða rétt ákvörðun,“ segir Brynjar. Flokkarnir séu farnir að undirbúa kosningar og áætlun þingsins miðist við kosningar í haust.

„Ég skil ekki þessa umræðu núna. Ég get alveg skilið að menn hafi verið ósammála þessu og talið réttara að kjósa næsta vor. En þessi umræða núna er einhvern veginn út í bláinn vegna þess að þetta er búið og gert að uppfylltum þessum forsendum,“ segir Brynjar og vísar þar til ákveðinna verkefna ríkisstjórnar sem til stóð að klára og hafa gengið ágætlega til þessa að hans sögn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert