Gríðargóð stemning í Borgarnesi

Unglingalandsmót UMFÍ var sett við formlega athöfn í gær.
Unglingalandsmót UMFÍ var sett við formlega athöfn í gær. Mynd/UMFÍ

„Ferlega góð stemning og allir hressir og góðir,“ segir Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ, í samtali við mbl.is. Um helgina fer Unglingalandsmót UMFÍ fram í Borgarnesi og eru yfir 1.500 keppendur á aldrinum 11-18 ára skráðir til leiks. 

Það var margmenni í brekkunni við íþróttasvæðið að fylgjast með keppninni og fánar blöktu við hún þegar mbl.is náði tali af Jóni. Veðrið leikur við keppendur og aðra mótsgesti en hlýtt er í veðri og smágola. „Það er bara til að kæla fólk niður,“ segir Jón Aðalsteinn, „það væri óþægilegt held ég að keppa ef það væri ekki gola.“

Keppnin hófst á fimmtudaginn en í gær var formleg setningarathöfn þar sem Haukur Valtýsson, formaður UMFÍ, flutti meðal annars ræðu um forvarnargildi íþrótta og Jón Jónsson flutti tónlistaratriði. 

Það eru hoppkastalar og ýmislegt fleira á tjaldstæðinu og afþreying í boði fyrir alla að sögn Jóns. Íþróttir eru einnig í boði fyrir þá sem eru yngri en ellefu ára, svo sem sundleikar og fótboltamót. Þá eru kvöldvökur milli klukkan 10 og 12 öll kvöldin meðan á mótinu stendur þar sem landsfrægir listamenn koma fram.

Þá hafa margir fylgst með götufótboltanum en dönsku heimsmeistararnir, þeir Peter og Omid frá Copenhagen Panna House, sýna götufótbolta á íþróttasvæðinu við sundlaugina og leyfa fólki að spreyta sig alla helgina.

„Þetta er ógeðslega skemmtilegt, það eru svo margir að styðja við keppendur og þeir hafa svo gaman af því að keppa saman,“ segir Jón Aðalsteinn, en þetta er fyrsta skiptið hans á unglingalandsmóti.

Hann hvetur þó mótsgesti endilega til að nýta sér fríar rútur sem aka frá tjaldsvæðinu og á keppnissvæðið á hálftíma fresti. Töluvert er af bílum um víðan völl í Borgarnesi og segir Jón Aðalsteinn um að gera fyrir fólk að notfæra sér heldur þessa fríu þjónustu.

Danskir snillingar leika listir sínar og leyfa mótsgestum að spreita …
Danskir snillingar leika listir sínar og leyfa mótsgestum að spreita sig í götufótbolta. Mynd/UMFÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert