Frjókorn í hámarki um þessar mundir

Um þessar mundir er einna mest af frjókornum í lofti.
Um þessar mundir er einna mest af frjókornum í lofti. mbl.is/Árni Sæberg

Um þessar mundir er hvað mestur fjöldi frjókorna í lofti en í vikunni mældist næsthæsta frjótala grasa frá því mælingar hófust á höfuðborgarsvæðinu. Lausasala ofnæmislyfja hefur aukist milli ára en erfitt getur reynst að verjast ofnæmiseinkennum algjörlega. Þó eru nokkur atriði sem hægt er að hafa í huga til að lágmarka einkenni.

Algengara meðal yngri

„Það er nú alltaf á þessum tíma mikið um frjókorn. Þetta er hæsta tímabil sumarsins sem grasafrjóið er í loftinu svo það eru margir sem finna fyrir því núna,“ segir Halla Jóhannesdóttir, hjúkrunarfræðingur á göngudeild ofnæmissjúkdóma Landspítalans, í samtali við mbl.is. Að sögn Höllu er frjó yfirleitt í lofti út í ágústmánuð og stundum fram í september, misjafnt eftir árferði.

Að sögn Höllu er frjókornaofnæmi erfðabundið og þess verður frekar vart meðal yngra fólks en þeirra sem eldri eru, þótt á því séu undantekningar. „Þetta er mjög óþægilegt og fólki líður illa ef lyfin duga ekki,“ segir Halla.

Á þessum tíma er alltaf eitthvað um bráðatilfelli vegna frjókornaofnæmis en samkvæmt upplýsingum frá bráðamóttöku Landspítalans hefur ekki orðið vart við aukningu slíkra tilfella á milli ára.

Aukin sala ofnæmislyfja

„Við verðum vissulega vör við aukningu á lausasölulyfjum yfirleitt og ofnæmislyfin eru þar stór þáttur,“ segir Þórbergur Egilsson, rekstrarstjóri hjá Lyfju, en hann telur að um sé að ræða einhverja aukningu á milli ára.

„Það er heilmikið áreiti sem fólk er að verða fyrir núna,“ segir Þórbergur en hann segir þurrt veður eiga þar stóran þátt. Lítið þarf af ofnæmisvakanum til þess að kveikja ofnæmi og þá sérstaklega hjá þeim sem eru næmir fyrir. Auk lyfja til inntöku getur staðbundin meðferð, svo sem notkun augndropa og nefúða, slegið frekar á einkenni.

Að sögn Þórbergs er virkni þeirra ofnæmislyfja sem seld eru í lausasölu á Íslandi mjög svipuð en getur verið persónubundið hvaða lyf henta hverjum og einum.

Húsráð við ofnæmi

Erfitt er að verjast ofnæmiseinkennum en með því að skola augu og fara reglulega í sturtu er hægt að halda frjókornunum í skefjum. Frjókornin setjast fyrir í hári og á líkamanum og getur því notkun höfuðfata og regluleg fataskipti komið að gagni. Séu einkennin mjög slæm er gott að halda sig innandyra. Þá er ráðlagt að hafa svefnherbergisglugga lokaða og hengja þvott ekki út til þerris á meðan frjó er hvað mest í lofti. Best er að slá gras áður en það blómgast og þá getur verið hjálplegt að nota sólgleraugu.

Náttúrufræðistofnun tekur saman upplýsingar um frjó í lofti og getur einnig verið hjálplegt að fylgjast vel með frjótölum. Samkvæmt upplýsingum á vef Náttúrufræðistofnunar dreifist grasfrjó einna helst snemma morguns og seinnipart dags.

Samkvæmt frétt á vef Náttúrufræðistofnunar eru líkur á miklu magni grasfrjókorna á höfuðborgarsvæðinu næstu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert