Endurreisa trönurnar á Seltjarnarnesi

Trönurnar á Seltjarnarnesi fuku í óveðrinu árið 2015.
Trönurnar á Seltjarnarnesi fuku í óveðrinu árið 2015. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúar Seltjarnarness ætla að taka höndum saman á morgun og endurreisa fiskitrönurnar sem stóðu á vestursvæðinu á Seltjarnarnesi. Trönurnar fuku niður í apríl 2015 vegna óveðurs. „Þeim var pakkað saman og stórum hluta af þeim hent. Nú erum við komin með nýtt efni frá bænum og við ætlum síðan að hjálpast að að setja trönurnar upp,“ segir Jón Snæbjörnsson, íbúi á Seltjarnarnesi.

Framkvæmdin hefst klukkan 17:00 á morgun og hafa bæjarstarfsmenn séð til þess að búið er að slá grasið og undirbúa svæðið þar sem reisa á trönurnar. Jón vonast til að sjá sem flesta á morgun og hvetur fólk til að taka með sér hamar, sög, vinnuvettlinga og síðast en ekki síst góða skapið. „Það væri mest gaman ef sem flestir Seltirningar mæta á morgun og hjálpast að við að koma trönunum upp, börn á öllum aldri og fullorðnir. Okkur langar til að hittast og gera eitthvað öðruvísi saman,“ segir Jón.

Fuglalíf við Gróttu á Seltjarnarnesi.
Fuglalíf við Gróttu á Seltjarnarnesi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Halda í sögu bæjarins 

Með því að endurreisa trönurnar er verið að halda í sögu bæjarins en í gamla daga var fiskur verkaður á trönunum. „Þá voru trönurnar mun stærri og miklu meiri um sig en þær verða hjá okkur,“ segir Jón.

Samkvæmt heimasíðu Seltjarnarnesbæjar voru margir útvegsbændur á Seltjarnarnesi og árið 1884 áttu Seltirningar fjörutíu sexæringa og níu áttæringa. Skútu- og þilskipaútgerð frá Seltjarnarnesi náði hámarki 1904 en eftir það fækkaði skipum sem gerð voru út frá Seltjarnarnesi og segja má að árið 1908 hafi verið síðasta árið í sögu skútuútgerðar á Nesinu.

„Það er vont að týna sögunni því það er svo erfitt að ná henni upp aftur,“ segir Jón en sjálfur hefði hann ekkert á móti því að trönurnar yrðu nýttar í að þurrka fisk. „Það er alltaf hákarl í hákarlaskúrnum sem er á leiðinni út í Gróttu. Maður þarf að anda djúpt að sér og þá fær maður orkuna úr honum,“ segir Jón að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert