Hlakkar til að læra heima

„Bara gaman,“ segir Jakob Már Kjartansson snöggur til svars, spurður út í fyrsta skóladaginn. Hann er nýbyrjaður í 1. bekk í Vatnsendaskóla og líkar vel. Hann segist ekkert vera feiminn í skólanum því hann þekkir kennarann sinn mjög vel því hann hefur hitt hann tvisvar áður. Hann þekkir líka marga sem eru með honum í bekk en flestir vinir hans úr leikskóla eru með honum í bekk.

Jakob Már er svo heppinn að fá að sitja við hliðina á besta vini sínum. Hann taldi upp nöfnin á nánast öllum skólasystkinum sínum þegar hann var spurður út í bekkjarfélagana sem hann segir að séu allir góðir vinir sínir. „Ég er líka búinn að kynnast nýjum strák. Hann heitir Birkir en hann er ekki með mér í bekk,“ segir Jakob Már, sem gleymir ekki að nefna nýja vin sinn.

Beinagrindin spennandi

Fyrsta skóladaginn gerði hann ýmislegt en náttúrufræðin stendur upp úr. Hann skoðaði m.a. beinagrind og var óhræddur við að snerta hana. „Hún var ekki lifandi. Þetta var ekki manneskja. Hún var keypt í búð,“ segir Jakob Már og brosir ánægður.

„Stærðfræði,“ svarar hann ákveðinn, inntur eftir því hvað hann hlakkar mest til að læra í skólanum. Hann viðurkennir að hann sé duglegur að telja peningana sína sem eru heilar sex þúsund þrjú hundruð og fjörutíu krónur. Hann er víst duglegur að telja dósir og leggja fyrir. „Næst ætla ég að safna fimm hundruð dósum,“ segir hann og reiknar út að upphæðin yrði verulega há.

„Ég hlakka mikið til að læra heima, þá fær maður að vera í friði. Stundum er ég aðeins að trufla bræður mína þegar þeir eru að læra,“ segir hann og brosir, en hann á tvo eldri bræður sem eru í sama skóla.

Jakob Már æfir fótbolta en hyggur á að prófa að byrja að æfa handbolta. Nemendur í Vatnsendaskóla fara með HK-vagninum til að fara á æfingar og í sund. Jakob Már er spenntur að ferðast með rútunni á milli staða enda er allt sem er nýtt frekar spennandi á þessum tíma lífsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert