Komnir í gegnum Húsavíkurhöfða

Erna Björnsdóttir, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, sprengdi síðasta haftið.
Erna Björnsdóttir, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, sprengdi síðasta haftið. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Búið er að grafa í gegnum Húsavíkurhöfða en það var Erna Björnsdóttir, forseti sveitarstjórnar Norðurþings, sem sprengdi síðasta haftið, hátt í hundrað manns voru viðstaddir athöfnina; heimamenn, þingmenn, fulltrúar Vegagerðarinnar og sveitarstjórnarmenn.

Göngin eru tæplega 1 km að lengd og tengja þau saman hafnarsvæðið á Húsavík og iðnaðarsvæðið á Bakka.

Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.
Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Þetta er hluti af innviðauppbyggingunni á Húsavíkursvæðinu vegna Bakka-verkefnisins en Norðurþing sagði í vikunni að haldið yrði áfram með alla uppbyggingu vegna kísilvers PPC á Bakka þrátt fyrir úrskurði úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál fyrir helgi.

Úrskurðarnefndin úrskurðaði um að stöðva bæri framkvæmdir við gerð tveggja háspennulína þar til niðurstaða fengist í umhverfismati á áhrifum háspennulínanna en umhverfisverndarsamtökin Landvernd kærði framkvæmdina til úrskurðarnefndarinnar.

Göngin klár næsta sumar

Undirbúningsframkvæmdir hófust síðastliðið haust og hófst gangagerðin snemma á þessu ári. Áætlað er að gatnagerð og frágangi verði lokið um mitt næsta sumar.

Snæbjörn Sigurðarson, verkefnastjóri hjá Norðurþingi yfir Bakka-verkefninu, segir göngin vera lykilatriði í því að tengja iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavíkurhöfn. „Orkufrekur iðnaður er mjög gjarnan hafsækinn. Það á við í tilfelli kísilvers PPC,“ segir Snæbjörn. „Það á reyndar við um flesta þá aðila sem hafa skoðað uppbyggingu á Bakka. Tengingin við höfnina skiptir þá miklu máli.“

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Hann segir Húsavíkurhöfða vera vinsælan til útivistar og vegagerð þar hefði eyðilagt mikið möguleikann til útivistar. Þá er höfðinn hár og því hefði vegagerð þar yfir þótt óhentug, sér í lagi út af þeim miklu flutningum sem iðja á Bakka krefst. „Þannig að það hefði aldrei komið til greina að fara yfir hann,“ segir Snæbjörn.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.
Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert