Áður gerðar athugasemdir við brunastiga

Opið þar sem konan féll niður.
Opið þar sem konan féll niður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Eldvarnareftirlit Brunavarna Árnessýslu hefur oftar en einu sinni gert athugasemdir við brunastiga þar sem þrítug kona féll 6,3 metra niður op á mánudagskvöld. Síðasta athugasemd var gerð í lok ársins 2015.

Að sögn Péturs Péturssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu, uppfylla ýmsir þættir við stigann ekki þær kröfur sem stofnunin gerir.

„Þetta er mál sem er í ferli. Það hafa verið samskipti um úrlausnir sem húsráðendur eru að vinna í,“ segir Pétur. Vinnueftirlitið er einnig með slysið til skoðunar, auk þess sem lögreglan á Suðurlandi rannsakar tildrög þess.  

Varað við hættu á blaði

Konan liggur alvarlega slösuð á Landspítalanum en hún höfuðkúpubrotnaði, kinnbeinsbrotnaði og hryggbrotnaði við fallið. Samkvæmt frétt RÚV er hún talin lömuð frá hálsi. Slysið átti sér stað að á þriðju og efstu hæð á Austurvegi 38 á Selfossi þar sem Sunnlenska fréttablaðið er með aðsetur. Hæðin er í eigu Sjálfstæðisflokksins á Selfossi.

Búið var að hengja upp blað á rúðu inni í húsinu, skammt frá brunastiganum, þar sem stóð að bannað væri að fara út á stigann en svo virðist sem konan hafi ekki tekið eftir því.

Frétt mbl.is: Heimatilbúinn frágangur 

Blaðið sem hengt var upp skammt frá stiganum.
Blaðið sem hengt var upp skammt frá stiganum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Afar sorglegt"

Pétur segir að ekki hafi verið óskað eftir því að brunastiganum yrði skipt út heldur að hann uppfyllti viðunandi kröfur sem eru gerðar.

„Eðlilega koma eftirlitsaðilar á hina ýmsu staði, hvort sem það eru stofnanir eða vinnustaðir, og gera athugasemdir og þar leita menn leiða við að laga hlutina en það tekur stundum meiri tíma en okkur þykir gott. Ég held að það hafi allir verið að vinna í því af heilindum en því miður gerast svona hlutir og það er afar sorglegt,“ segir Pétur.

Spurður um tímafrestinn sem húsráðendum var gefinn til að gera við stigann segist Pétur ekki geta sagt til um hvort þetta tiltekna mál hafi verið runnið út á fresti þegar slysið varð.

Hann bætir við að mikilvægt sé að lagfæringar verði gerðar sem allra fyrst og því máli verði fylgt vel eftir. „Þetta er flóttaleið vegna bruna, þannig að fólk þarf að geta bjargað sér út úr byggingum á öruggan hátt.“

Húsnæðið þar sem slysið varð.
Húsnæðið þar sem slysið varð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fleiri athugasemdir gerðar

Pétur greinir frá því að eftirlitsaðilar hafi gert athugasemdir við fleiri hluti í húsinu í tengslum við eldvarnir og stiginn hafi verið eitt af alvarlegri málunum.

Spurður út í fleiri staði í bænum sem Brunavarnir Árnessýslu hafi gert athugasemdir við segir hann: „Brunavarnir Árnessýslu starfa á 9 þúsund ferkílómetra svæði þar sem allir ferðamenn Íslands fara í gegn og þar búa um 15 þúsund manns. Ætli það séu ekki að staðaldri um 40 til 60 þúsund manns í sýslunni,“ greinir hann frá.

„Við erum með gríðarlega miklar og stórar byggingar hér og þar og víða erum við með athugasemdir við fasteignir eins og annars staðar á landinu. Það eru eðli málsins samkvæmt fjölmargir staðir sem við gerum athugasemdir við á einn eða annan hátt.“

Uppfært kl. 19.55:

Samkvæmt heimildum mbl.is er konan lömuð frá brjósti og getur hreyft hendurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert