Álagning útsvars í hæstu leyfilegu hæðum

Það er löngu tímabært að löngu tímabili taprekstrar Reykjavíkurborgar ljúki, að mati borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þeir telja ákveðinn viðsnúning í 6 mánaða uppgjöri borgarinnar en segja að hafa beri í huga að viðsnúninginn megi rekja til þess að skatttekjur eru 575 milljónum króna yfir áætlun og að tekjum sé flýtt vegna eftirálagðs útsvars um 1,5 milljarða króna.

Þetta kemur fram í bókun sem Halldór Halldórsson lagði fram fyrir hönd borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu 6 mánaða uppgjörs Reykjavíkurborgar í borgarráði.

„Þá ber að hafa í huga að tekjufærsla á samstæðu er 5,6 milljarðar kr. vegna hækkunar á eignum Félagsbústaða sem er einungis reiknuð stærð og hefur engin áhrif á rekstur eða efnahag Reykjavíkurborgar nema þessar eignir verði seldar sem varla gerist enda langir biðlistar eftir félagslegu húsnæði.

Álagning útsvars á Reykvíkinga er í hæstu leyfilegu hæðum. Lög heimila borginni ekki að hækka útsvarið enn frekar. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að um leið og svigrúm skapast hjá borginni til að bæta þá grunnþjónustu sem enn er ekki nógu góð eigi að hefja lækkun útsvars,“ segir enn fremur í bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert