Ósátt við útisvæði barnanna

Foreldrar barna í frístundaheimilinu í Glaðheimum eru ósáttir við þá útiaðstöðu sem börnunum sem eru á aldrinum 6-9 ára er boðið upp á. Lítið sem ekkert af leiktækjum er í boði fyrir börnin úti og þá vilja foreldrar að sett verði upp girðing við Holtaveg til að auka öryggi barnanna. 

Allt frá því að Glaðheimar, sem er í gamla félagsheimili Þróttar,  opnuðu fyrir rúmum áratug hefur verið litið á húsnæðið sem bráðabirgðahúsnæði en skóla- og frístundasvið samþykkti á fundi í febrúar að reynt yrði að finna starfseminni hentugra húsnæði í meiri nánd við Langholtsskóla.

Það var gert í kjölfar þess að stúlka varð fyrir bíl á leið sinni frá frístundaheimilinu á síðasta ári og hafin var undirskriftasöfnun til þess að knýja fram breytingar. Á meðal þess sem var gagnrýnt í bréfi sem sent var á borgaryfirvöld var að börnin þurfi að fara yfir fimm götur á leið sinni frá skólanum í frístundaheimilið.

Hins vegar hefur ekkert verið ákveðið varðandi nýtt húsnæði og Elva Gísladóttir, sem er nú með sitt þriðja barn sem fer í dagvistun á frístundaheimilinu, er orðin langeyg eftir því að bætt verði úr aðstöðunni sem börnunum og starfsfólki frístundaheimilisins er boðið upp á. Elva segist hafa heyrt að girðingin ætti að rísa á næstu dögum en bendir á að það hafi einnig heyrst í vor.

mbl.is kom við á útisvæðinu við Holtaveg í dag og ræddi við Elvu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert