„Á barnið virkilega ekki mömmu?“

Hlutfall íslenskra karlmanna sem taka feðraorlof hefur lækkað undanfarin ár. …
Hlutfall íslenskra karlmanna sem taka feðraorlof hefur lækkað undanfarin ár. Frumvarp að nýjum fæðingarorlofslögum er í smíðum. Getty Images/iStockphoto

Færri feður taka fæðingarorlof nú en árið 2007. Yngri, menntaðri og tekjuhærri feður eru líklegri en þeir eldri til að taka fæðingarorlof og eru dæmi um að feður sem taka orlof mæti neikvæðu viðhorfi vinnuveitenda.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri rannsókn Sigurbjargar Magnúsdóttur, sem hún gerði í meistaranámi sínu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði við Háskólann í Reykjavík.

„Ég skoðaði reynslu feðra af fæðingarorlofi og bar niðurstöðurnar saman við rannsókn sem var gerð árið 2007,“ segir Sigurbjörg. „Niðurstaðan er að árið 2016 nýttu færri feður sér óskiptanlega rétt sinn til fæðingarorlofs og nýttu einnig minna af sameiginlegum rétti.“

Núverandi fyrirkomulag orlofsins er á þann veg að faðir getur tekið þriggja mánaða leyfi, móðir sömuleiðis og því til viðbótar eru þrír mánuðir sem foreldrar ákveða sjálfir hvernig ráðstafað er. Í áðurnefndri rannsókn frá 2007, sem gerð var af Auði Örnu Arnardóttur og fleirum, nýttu 75% feðra sér þriggja mánaða rétt sinn, en í rannsókn Sigurbjargar var þetta hlutfall komið niður í 42,2%. 8,1% feðra tók ekkert fæðingarorlof árið 2007 en í rannsókn Sigurbjargar var þetta hlutfall 12,2%. „Fáir nýttu sér fullan rétt sinn. Það var algengt að þeir færu í 6-8 vikna orlof,“ segir Sigurbjörg.

Stjórnast af fjárhagnum

Eitt af því sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar er að taka feðraorlofs helgast oft af fjárhagslegum ástæðum fjölskyldunnar. Til dæmis nefndu sumir feðurnir í rannsókninni að þeir teldu sig vart hafa fjárhagslega burði til að taka fæðingarorlof en gerðu það engu að síður vegna pressu frá móðurinni.

„Fjárhagurinn stjórnar bæði hvernig orlofi er hagað, þ.e. hversu langt orlof er tekið og hvort eitthvert orlof er yfirhöfuð tekið,“ segir Sigurbjörg. „Feður segja að þakið sé alltof lágt þegar kemur að greiðslum úr fæðingarorlofssjóði og að það sé ekki hægt að verða fyrir svo miklu tekjutapi. Þeir segja einnig að það ýti undir að feður taki að sér „svarta“ vinnu í orlofinu til þess að halda fjárhagnum gangandi.“

Í rannsókninni voru feðurnir m.a. spurðir hversu langt fæðingarorlof þeir hefðu tekið og hversu sterk tengsl þeir teldu sig hafa myndað við barnið sitt. Fram kom að sterk fylgni er á milli lengdar orlofsins og hvernig feðurnir meta tengsl sín við barnið.

Neikvætt á kallavinnustöðum

Feðurnir voru einnig spurðir um viðhorf vinnuveitenda til fæðingarorlofstöku þeirra og segir Sigurbjörg að töluverður munur hafi komið fram hjá starfsstéttum. „Neikvætt viðhorf heyrðist meira á „karlavinnustöðum“, þar sem karlar eru í meirihluta. Sumir sögðust hafa fengið spurningar á borð við: „Á barnið virkilega ekki mömmu?“ og aðrir sögðust vera hræddir um að missa starfið ef þeir tækju fæðingarorlof,“ segir Sigurbjörg.

Pabbar finna togstreitu

Sigurbjörg segir að staða feðra á vinnumarkaði hafi lítið verið rannsökuð. Full þörf sé á því á fleiri rannsóknum á þessu sviði, stór hluti karla á vinnumarkaði séu feður og fjölskyldumenn. Rannsóknin hafi sýnt að karlar, rétt eins og konur, geti upplifað togstreitu á milli starfs og fjölskyldulífs.

„Báðir foreldrar ættu að geta verið heima með nýfæddu barni sínu án þess að hafa áhyggjur af því að missa vinnuna og það ætti að gilda jafnt um konur og karla,“ segir Sigurbjörg. „Feður sem höfðu stuðning frá vinnuveitanda sínum þegar kom að töku feðraorlofs upplifðu minni togstreitu milli vinnu og fjölskyldulífs, fremur var það vinnan sem auðgaði fjölskyldulífið og öfugt. Það er því mjög mikilvægt fyrir feður að finna fyrir stuðningi frá vinnuveitanda þegar kemur að töku feðraorlofs.“

Sigurbjörg Magnúsdóttir.
Sigurbjörg Magnúsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert