Grunaðir smyglarar áfram í farbanni

Norræna við höfn í Seyðisfirði. Myndin er úr safni.
Norræna við höfn í Seyðisfirði. Myndin er úr safni. mbl.is/Steinunn

Hæstiréttur staðfesti áframhaldandi farbann yfir tveimur mönnum sem grunaðir eru um umfangsmikið smygl á fíkniefnum með Norrænu í fyrra. Alls eru fjórir menn ákærðir í málinu, tveir Íslendingar og tveir Hollendingar. Brot mannanna eru sögð varða 12 ára fangelsi.

Smyglið er sagt hafa átt sér stað þannig að par hafi komið á bifreið til landsins með Norrænu en ferð þeirra hófst í Hollandi. Það hafi svo ekið til Reykjavíkur en skilið bílinn eftir í Keflavík. Maðurinn er ákærður í málinu en hann er sagður hafa flogið frá landinu en komið svo aftur með flugi þremur dögum seinna. Hann og þrír aðrir voru svo handteknir í Keflavík og fundust þá rúmlega 19,5 kíló af amfetamíni og rúmlega 2,5 kíló af kókaíni sem var búið að fela í bifreið.

Tvímenningarnir sem Hæstiréttur staðfesti farbann yfir í fyrradag hafa verið í gæsluvarðhaldi og farbanni frá því að þeir voru handteknir vegna smyglsins í september. Annar þeirra er sagður hafa komið til landsins á sama tíma og sá sem kom upphaflega með bílinn með Norrænu kom hingað aftur. Þeir hafi svo hist við gistiheimili þar sem þeir voru báðir handteknir.

Hinn maðurinn sem var úrskurðaður í áframhaldandi farbann er sagður hafa fylgst með bifreiðinni sem kom með Norrænu og var skilin eftir í Keflavík. Við leit í bílaleigubíl sem hann var skráður fyrir fundust sjónauki, lambhúshetta og rúmlega 15.600 evrur.

Fréttir mbl.is:

Meintir smyglarar í farbann

Í farbann eftir stórfellt smygl

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert