Makar sessunautar á framboðslista

Lárus Sigurður Lárusson og Sævar Þór Jónsson ásamt syni þeirra …
Lárus Sigurður Lárusson og Sævar Þór Jónsson ásamt syni þeirra Andra. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Héraðsdómslögmennirnir Lárus Sigurður Lárusson og Sævar Þór Jónsson sitja hlið við hlið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir komandi þingkosningar. Sævar og Lárus eru giftir og eiga saman einn son en báðir gefa þeir kost á sér til setu á Alþingi í fyrsta sinn.

„Við erum að stíga okkar fyrstu skref í þessu,“ segir Sævar í samtali við mbl.is. „Ég hef kannski meira látið kveða að mér opinberlega í greinaskrifum,“ segir Sævar sem hingað til kveðst lítið hafa verið virkur í pólitík. Lárus aftur á móti hefur verið virkur í Framsóknarflokknum í um 20 ár.

„Það var nú ekkert þannig séð rígur á milli okkar, ég sóttist eftir þriðja sætinu og hann sóttist eftir öðru sæti,“ segir Sævar en báðir hrepptu þeir þau sæti sem þeir sóttust eftir. Lárus gaf einn kost á sér í annað sæti á lista og var sæti hans því nokkuð öruggt en Sævar átti í baráttu um þriðja sætið.

Frétt mbl.is: Efstu sæti Framsóknar í Reykjavík ljós

Sævar segir þá Lárus vera að meginstefnu sammála í pólitíkinni þótt vissulega hafi þeir ólíkar áherslur í ýmsum málum. „Ég hef lagt meiri áherslu á það að það þyrfti að ganga lengra í húsnæðismálum heldur en Lárus,“ segir Sævar en hann vill sjá róttækari aðgerðir í þeim efnum. „Það má ekki búast við því að við verðum samstíga í öllum málum þó að við séum giftir,“ segir Sævar léttur í bragði. 

„Það er nú líklegra að Lárus komist á þing heldur en ég,“ segir Sævar, spurður hvernig þeim hugnast að verða samstarfsmenn á þingi, fari svo að báðir nái þeir kjöri. „En ef til þess kæmi þá væri það nú bara mjög spennandi. Við eigum strák saman og erum saman á lögmannsstofu þannig að ég held að það muni nú ekki breytast neitt mikið,“ útskýrir Sævar. 

Frétt mbl.is: Lárus gefur kost á sér í 2. sætið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert