900 kjötsúpuskammtar á Hvolsvelli

Stjórnmálamenn kepptu í rjómatertukasti á Kjötsúpuhátíðinni á Hvolsvelli um helgina.
Stjórnmálamenn kepptu í rjómatertukasti á Kjötsúpuhátíðinni á Hvolsvelli um helgina. Ljósmynd/Sigurður Jónsson

Rjómatertukast milli fulltrúa stjórnmálaflokkanna var meðal nýrra dagskrárliða á Kjötsúpuhátíðinni á Hvolsvelli sem fram fór um helgina. Metfjöldi sótti hátíðina í ár en fjöldi afgreiddra kjötsúpuskammta er jafnan notaður sem mælikvarði á stærð hátíðarinnar. Í ár voru skammtarnir 900 talsins samanborið við 600 í fyrra.

„Þetta hefur verið svona heimamannahátíð en hún var töluvert stærri í ár en hún hefur verið,“ segir Bessi Theódórsson, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, í samtali við mbl.is, en hátíðin hefur nú verið haldin í nokkuð mörg ár. „Það fóru 900 skammtar og það segir okkur að það hafi verið einhvers staðar á milli tvö og þrjú þúsund manns á svæðinu,“ segir Bessi. 

900 kjötsúpuskammtar voru afgreiddir á hátíðinni í ár en í …
900 kjötsúpuskammtar voru afgreiddir á hátíðinni í ár en í fyrra voru þeir aðeins 600. Ljósmynd/Sigurður Jónsson

Ekki var aðeins margt um manninn á sjálfum kjötsúpudeginum í gær en um 600 manns tóku þátt í kjötsúpuröltinu á föstudagskvöld þegar þorparar opnuðu heimili sín fyrir gestum og gangandi og buðu upp á kjötsúpu. Þá var veðrið ekki af verri endanum sem setti sinn svip á annars vel heppnuð hátíðarhöld.

„Þetta var hin besta skemmtun“

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í rjómatertukastinu en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Silju Dögg Gunnarsdóttur sem var fulltrúi Framsóknarflokksins.

„Þetta var hin besta skemmtun,“ segir Bessi en stjórnmálamönnunum var stillt upp í tvær raðir og kepptust þeir við að kasta rjómatertum hver í annan og fór keppnin í bráðabana. „Silja Dögg frá Framsókn hrósað sigri en það voru allir sigurvegarar þarna, kannski sérstaklega áhorfendur,“ segir Bessi.

Lið Southcoast Adventure stóð uppi sem sigurvegari í vatnsknattleiknum.
Lið Southcoast Adventure stóð uppi sem sigurvegari í vatnsknattleiknum. Ljósmynd/Sigurður Jónsson

Þá tókst vatnsknattleikurinn vel til en þar öttu kappi fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækjanna Southcoast Adventure og Midgard Adventure en svo fór að lið Southcoast bar sigur úr býtum. Keppendur skemmtu sér vel og höfðu gaman af leiknum líkt og áhorfendur sem einnig blotnuðu í látunum.

Áttræðar ömmur á Albatross

Fjölbreytt dagskrá var í boði á Hvolsvelli alla helgina en fram komu meðal annars Barnakór Hvolsskóla og prakkararnir í Pollapönki. Þá lásu nemendur úr Hvolsskola texta upp úr verkum höfunda af svæðinu og fjöldi sótti kvöldvökuna þar sem boðið var upp á flugeldasýningu, brennu og vallarsöng.

Hljómsveitin Albatross lék svo fyrir dansi í gærkvöld þar sem allir voru að sögn Bessa í miklum vinaham. „Það voru alveg krakkar frá 18 ára og upp í áttræðar ömmur þeirra á ballinu,“ segir Bessi svo segja má að ballið hafi sameinað ólíkar kynslóðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert