Viðbúnaður vegna neyðarboða frá flugvél

TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar.
TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Mikill viðbúnaður var virkjaður í dag þegar stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hóf að berast neyðarboð frá íslenskri flugvél yfir landinu. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð, björgunarsveitir kallaðar út og sömuleiðis áhafnir TF-SYN og TF-SIF.

Neyðarboðin hófu að berast um klukkan 16.30. Þá var haft samband við Flugstjórnarmiðstöð sem upplýsti að viðkomandi flugvél væri á flugi yfir Íslandi og áætlaði lendingu í Skagafirði tveimur og hálfum tíma síðar.

Á þessum tíma var talsverður fjöldi flugvéla á flugi yfir landinu sem tilkynntu að þær hefðu heyrt í neyðarsendi.

„Þá þegar kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út TF-SYN, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem og áhöfnina á TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar. Einnig voru björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar, bæði norðanlands og sunnanlands, kallaðar út auk þess sem samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð til samræmis við neyðaráætlun flugslysa,“ segir í tilkynningu frá Gæslunni.

TF-SYN fór í loftið skömmu eftir að neyðarboðin bárust en fljótlega eftir það, eða um kl. 17.15, náðist í flugmann flugvélarinnar gegnum farsíma. Flugvélin reyndist vera á flugi í Skagafirði og „allt í góðu lagi“. Voru þá allar bjargir afturkallaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert