Segir búvörulög skjaldborg um einokun

Ólaf­ur Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri Mjólk­ur­bús­ins Kú
Ólaf­ur Magnús­son, fram­kvæmda­stjóri Mjólk­ur­bús­ins Kú mbl.is/Eyþór

Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri mjólkurbúsins Kú segist harma hversu skammt gengið sé í breytingum til aukins jafnræðis á mjólkurmarkaði í þeim tillögum sem meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis leggur til í nýjum búvörulögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafi.

Segir hann að ennþá sé gert ráð fyrir því að Mjólkursamsalan verði undanþegin ákvæðum samkeppnislaga og telur hann það með öllu óskiljanlegt að löggjafi skuli viðhalda því í ljósi nýlegrar ákvörðunar Samkeppniseftirlitins í málefnum MS.

Þá segir Ólafur formann Bændasamtakanna hafa haldið því ranglega fram í fréttum í gær að viðhalda þyrfti undanþágum MS þar sem skyldur um söfnun mjólkur hvíldu á herðum MS og að greiða þyrfti sama verð fyrir mjólkina um allt land. Segir Ólafur þetta ósannindi því ákvæðið hafi verið fellt úr búvörulögum fyrir nokkru. „Engin slík skylda hvílir því á MS, á þetta reyndi í svokölluðu Brúarreykjamáli,“ segir Ólafur í tilkynningunni.

Þá skorar hann á Alþingi að skjóta ekki á frest umræðu um úrbætur á rekstrarumhverfi minni úrvinnsluaðila, en Ólafur segir MS hafa kverkatak á keppinautum sínum í gegnum hið opinbera verðlagningarkerfi.

Segir Ólafur að meirihlutaálit atvinnuvegarnefndar sé „því aðeins kattarþvottur sem ætlað er að slá ryki í augu almennings. Því í raun er hér verið að slá skjalborg um einokun og fákeppni á mjólkurvörumarkaði til næstu 10 ára. Síðast en ekki síst er verið að koma sér hjá efnislegri umræðu um þau ólög og álögur sem fyrirliggjandi búvörusamningar leiða af sér fyrir almenning. Það því ljóst að varðmenn einokunar og fákeppni kunna ekki að skammast sín.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert