Verður að vera agi í hernum

Formenn Golfsambandsins: Júlíus Rafnsson, Haukur Örn Birgisson, núverandi formaður, og …
Formenn Golfsambandsins: Júlíus Rafnsson, Haukur Örn Birgisson, núverandi formaður, og Sveinn Snorrason á móti, sem GSÍ hélt fyrir núverandi og fyrrverandi stjórnendur á Urriðavelli í Garðabæ á dögunum. Ljósmynd/GSÍ

Gildi íþrótta er sjaldnast ofmetið og gott er til þess að vita að fólk getur stundað sumar greinar meðan heilsan leyfir. Það á við um golfið, þar sem margir eldri borgarar njóta sín í botn, en 55% allra kylfinga í félögum innan Golfsambands Íslands eru eldri en 50 ára.

Þeirra á meðal er Sveinn Snorrason, hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi forseti Golfsambandsins, en hann hefur spilað golf í um 64 ár.

Eftir að hafa lokið prófi í lögfræði var Sveinn fulltrúi bæjarfógeta í Vestmannaeyjum í tvö ár. „Það var lítið hægt að gera í frítímanum úti í Eyjum annað en að spila golf, ég byrjaði á því 1952 og hef verið að síðan,“ segir Sveinn, sem er á tíræðisaldri og í fullu fjöri.

Þegar Sveinn flutti aftur til Reykjavíkur 1953 gekk hann í Golfklúbb Reykjavíkur, þar sem hann er nú heiðursfélagi, en hann er auk þess félagsmaður í golfklúbbnum Keili og golfklúbbi Kiðjabergs. Hann var í stjórn GR 1956 til 1961 og forseti Golfsambands Íslands 1962 til 1969.

Kylfingar gerðu allt sjálfir

„Þegar ég byrjaði í golfinu voru bara þrír golfklúbbar hérna, í Vestmannaeyjum, Reykjavík og á Akureyri og í mesta lagi um 150 virkir kylfingar á landinu öllu,“ rifjar Sveinn upp. Hann segir að félagsmenn hafi þurft að taka til hendi á völlunum og hann hafi fljótlega farið í vallarnefnd úti í Vestmannaeyjum. „Við þurftum að gera allt sjálfir, slá flatirnar og fleira,“ segir hann. „Við vorum inni í Herjólfsdal með sex holur til að byrja með. Þetta var góður félagsskapur, menn úr öllum stéttum, í fallegu og skemmtilegu umhverfi.“

Þrátt fyrir miklar framfarir í öllu sem viðkemur íþróttinni er Sveinn ekki viss um að skemmtilegra sé að spila golf nú en áður. „Tilhlökkunin var alltaf svo mikil í gamla daga, því þá fór maður sjaldnar auk þess sem þá þurfti meira að hafa fyrir því að spila. Það er yfirleitt þannig í lífinu að þurfi maður að hafa fyrir einhverjum hlutum verða þeir eftirminnilegri og ánægjulegri ef þeir takast.“

Golfvellir eru víða um land og Sveinn á erfitt að gera upp á milli þeirra. Hann er með 24 í forgjöf en var með um 5 í forgjöf þegar best lét. „Þetta var allt frjálsara í gamla daga. Ef menn sigruðu í keppni voru þeir miskunnarlaust lækkaðir í forgjöf. Það var auðvitað upphefð í því að hafa lægri forgjöf þannig að sigurinn var tvöfaldur. Þegar ég var sjötugur var ég með 10 í forgjöf og hét því að hún yrði aldrei hærri en ég í árum umfram 60 ár. Ég hef staðið við það.“ Sveinn bætir við að hann hafi aldrei átt í erfiðleikum með að finna sér golffélaga. „Ég spila með hverjum sem er, ungum sem gömlum, körlum sem konum.“

Sveinn hefur yfirleitt fundið sér tíma fyrir golfið. Hann segir að það hafi verið erfiðara með fullri vinnu en hann hafi hætt að vinna fyrir 11 árum og helst ekki sleppt úr degi síðan nema veðrið hafi verið þeim mun verra. „Núna fer ég ekki nema níu holur í einu enda orðinn 91 árs,“ segir hann. Leggur samt áherslu á að golfið gefið sér mikið, þar á meðal hreysti, mikla ánægju, góðan félagsskap og aga. „Eins og góði dátinn Svejk segir þá verður að vera agi í hernum,“ heldur hann áfram og bendir á að í íslenska golfhernum séu um 17.000 manns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert