Örnefnavefur Fornminjafélags Súgandafjarðar opnaður

Ásta Friðbertsdóttir, Björk Birkisdóttir, Lilja Birkisdóttir og Guðrún Björnsdóttir.
Ásta Friðbertsdóttir, Björk Birkisdóttir, Lilja Birkisdóttir og Guðrún Björnsdóttir. Ljósmynd/Fornminjafélag Súgandafjarðar

Forminjafélag Súgandafjarðar lauk nýverið tveggja ára vinnu þar sem öll þekkt örnefni fjarðarins voru sett inn á ljósmyndir og settar á ljósmyndavef félagsins þar sem örnefnum er gert hátt undir höfði. Birkir Friðbertsson í Birkihlíð í Súgandafirði hefur leitt verkefnið frá upphafi, en hann kynnti verkefnið á kynningarfundi um örnefnavefinn í Grunnskólanum á Suðureyri síðastliðinn laugardag.

Fyrirlestur Birkis var fróðlegur, en þar sagði hann frá aðdraganda verkefnisins og framvindu þess. Til dæmis hvernig hann hefði farið í gegnum allar örnefnaskrár, kort og heimildir og rætt við staðkunnuga til að afla sem bestra upplýsinga.

Með örnefnavefnum er búið að koma á einn stað öllum þekktum örnefnum fjarðarins á svæðinu frá Sauðanesi til Öskubaks, frá fyrstu tíð til dagsins í dag.

Sæmundur Þórðarson og Kjartan Kjartansson.
Sæmundur Þórðarson og Kjartan Kjartansson. Ljósmynd/Fornminjafélag Súgandafjarðar

Vinnan tók um tvo ár 

Á örnefnavefnum má sjá á ljósmyndum nákvæma staðsetningu allra eða langflestra örnefna fjarðarins. Því til viðbótar hefur Birkir einnig tekið saman þekktar göngu- og reiðleiðir og fiskimið. Allt er þetta aðgengilegt á vefnum.

Spurður hvernig hugmyndin hafi komið upp um örnefnavefinn segir Birkir að upphafið megi rekja til stofnunar fornminjafélagsins sem skipt var í fjórar deildir. „Einn hópurinn er örmerkjahópur sem ég fer fyrir. Við vorum svo heppin að eiga hér frá gömlum tíma, 1949 eða 1959, mjög góða samantekt um öll örnefni í Suðureyrarhreppi,“ segir Birkir.

Hans verk var síðan að lesa úr samantektinni og skrifa örmerkin inn á myndir. Birkir segir verkið hafa verið töluverða vinnu en það tók um tvö ár. „Mér skilst að það sé hvergi sem hafi verið unnið að þessu alveg á þennan hátt. Ég efast ekki um að þetta verði gert víðar á landinu en síðan fer allt eftir því hversu góðar heimildir menn eiga um örmerki frá fyrri tíð.“

Að sögn Eyþórs Eðvarðssonar, formanns Fornminjafélags Súgandafjarðar, er um að ræða merkan áfanga í sögu fjarðarins og einstætt verk og ómetanlega vinnu fyrir menningarsögu Súgandafjarðar.

Birkir Friðbertsson.
Birkir Friðbertsson. Ljósmynd/Fornminjafélag Súgandafjarðar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert