Atvikið litið alvarlegum augum

Bifreið Íslenska gámafélagsins ekur á móti akstursstefnu við endurvinnslustöð Sorpu …
Bifreið Íslenska gámafélagsins ekur á móti akstursstefnu við endurvinnslustöð Sorpu að Breiðhellu í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend mynd

„Þarna voru greinilega gerð mistök. Það fer ekki á milli mála og við lítum þetta alvarlegum augum,“ segir Haukur Björnsson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, en mbl.is fékk í gær sendar ljósmyndir af bifreið fyrirtækisins að aka á móti einstefnu við endurvinnslustöð Sorpu að Breiðhellu í Hafnarfirði.

Frétt mbl.is: Ítrekuðu bann við brotum

Alvarlegt umferðarslys varð við Sorpu á Dalvegi í Kópavogi árið 2011 þegar gámabifreið ók í veg fyrir hjólreiðamann. Bifreiðinni var ekið gegn akstursstefnu inn á svæði Sorpu þegar slysið varð. Fundaði íslenska gámafélagið með bílstjórum sínum eftir slysið og lagði bann við að aka gegn akstursstefnu inn á gámastöðvarnar.

Haukur Björnsson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.
Haukur Björnsson, forstjóri Íslenska gámafélagsins. mbl.is

Haukur rifjar upp atvikið 2011 og segir að í því ljósi sé atvikið sem náðist á ljósmynd litið enn alvarlegri augum en ella. „Öryggi almennings, viðskiptavina og starfsmanna okkar er ofar öllu í okkar starfsemi. Traust skiptir öllu,“ segir Haukur. Hann segir að þegar hafi farið fram frumrannsókn á atvikinu innan fyrirtækisins.

„Þarna voru þessi týpísku mannlegu mistök,“ segir hann. „Merkingar og fyrirmælin eru alveg skýr.“

Hjólreiðamanninum sem lenti í slysinu árið 2011 var haldið sofandi í öndunarvél í tvær vikur áður en hann var útskrifaður af gjörgæslu. 

Ljósmynd/Aðsend mynd

Haukur segir að undir stýri hafi verið reynslumikill og fær bílstjóri. „Þrátt fyrir að menn reyni að hafa varann á sér þá taka menn ákvarðanir sem reynast rangar,“ segir Haukur og bætir við að farið verði yfir vinnulagið með bílstjórum fyrirtækisins á næstu dögum.

„Við gerum það að sjálfsögðu reglulega með bílstjórunum og öðrum starfsmönnum, en við munum hnykkja á vinnulaginu í þessu tilviki,“ segir Haukur.

Frétt mbl.is: Útskrifaður af gjörgæslu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert