Hlaut beinbrot á Sauðárkróki

Mennirnir slógust eftir ball á Sauðárkróki.
Mennirnir slógust eftir ball á Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Karlmaður sem var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur eftir líkamsárás að loknu balli á Sauðárkróki um síðustu helgi hlaut beinbrot í árásinni.

Frétt mbl.is: Alvarleg líkamsárás á Sauðárkróki

Skýrsla tekin af vitnum

Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki lenti tveimur mönnum saman eftir Laufskálaréttarball í reiðhöllinni Svaðastöðum um klukkan fjögur um nóttina. Hún kveðst ekki vita ástæðuna fyrir slagsmálunum. Vitni sáu mennina slást og hefur lögreglan tekið skýrslu af þeim. Um eitt þúsund gestir voru á ballinu.

Bíður eftir áverkavottorði

Lögreglan bíður eftir áverkavottorði frá lækni og eftir það verður ákveðið með framhaldið. Maðurinn sem hlaut beinbrot hefur ekki lagt fram kæru á hendur hinum manninum en báðir eru þeir um þrítugt. Að sögn lögreglunnar telst málið ekki þess eðlis að ástæða hafi verið til að fara fram á gæsluvarðhald.

Þrátt fyrir að hafa verið fluttur með sjúkraflugi segir lögreglan að maðurinn hafi ekki verið alvarlega slasaður. Ástæðan fyrir fluginu var fyrst og fremst sú að ekki voru nægilega góð tæki til að mynda hann á  heilsugæslustöðinni á Sauðárkróki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert