Olgeir verið yfir ár á fjalli

Kristinn Guðnason, fjallkóngur Landmanna, afhendir Olgeiri Engilbertssyni (t.h.) ljósmyndina sem …
Kristinn Guðnason, fjallkóngur Landmanna, afhendir Olgeiri Engilbertssyni (t.h.) ljósmyndina sem Ragnar Axelsson tók á sínum tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Olgeir Engilbertsson, trússari með meiru, kom af fjalli með leitarmönnum á Landmannaafrétti fyrir helgi. Hann varð áttræður í sumar og þetta var 55. ferð hans. Á þessum tímamótum gáfu fjallmenn honum ljósmynd sem Ragnar Axelsson tók af honum í göngum fyrir nokkrum árum.

„Þetta kom mér ánægjulega á óvart og ekki skemmdi fyrir að konan fékk blómvönd, því þeir sem eru heima og þurfa að vera í verkunum gleymast oft en þeir sem fara fá þakkirnar og hrósið,“ segir Olgeir. „En þetta er svo stór mynd að það liggur við að ég verði að stækka húsið.“

Fyrsta heila fjallferð Olgeirs var 1964. Hann segir að þá hafi litlu baggarnir ekki verið komnir og heyið að miklu leyti verið flutt í stórum strigapokum á vörubíl. „Flutningarnir voru miklu meiri í gamla daga og hver maður var með sína skrínu þangað til sett var upp mötuneyti með ráðskonum, að mig minnir 1973,“ segir hann. „Þá losnaði ég við að útbúa matinn og það var allt annað líf að fá heitan mat á kvöldin.“ Hann bætir við að fyrstu árin hafi ekki verið farið á bílnum í innstu leitir heldur á hestum inn í Jökulgil. „Þá var ég með í því að smala fyrstu dagana en ég er algerlega hættur því, flyt bara matinn og ráðskonurnar inn úr í gamla góða Weaponinum og fylgi síðan safninu með nesti fyrir fólkið.“ Hann þarf líka að sjá um að gasið sé í lagi, þar sem ekki er rafmagn, ljós, talstöðvar og fleira. „Það er ekki eitt heldur allt smálegt sem ég þarf að hugsa um. Núna þurfti ég til dæmis að líma saman gleraugu hjá einum, því menn á hestum eru ekki með smádót meðferðis.“

55. ferðin

Þetta var 55. ferð Olgeirs á fjall. „Ég fór tvisvar í seinni leit og því hef ég verið meira en ár á fjalli. Það eru auðvitað smámunir miðað við Ólaf í Geldingaholti,“ segir hann.

Olgeir segir að streðið sé einna eftirminnilegast úr fjallaferðunum. „Áður fyrr var áberandi kaldari veðrátta og þá þurfti oftar en ekki að setja á keðjur þarna lengst upp frá enda miklar brekkur á leiðinni. Nú er það hending að þess þurfi.“ Hann rifjar upp að erfiðasta ferðin í seinni tíð hafi verið 1963, ári áður en hann fór í fyrstu ferðina. „Þá lentu menn í ofsalega erfiðum byl og voru hætt komnir.“ Hann nefnir líka að 1979 hafi snjóað snögglega og þá hafi þurft að fá hefil inn úr til að ná fólkinu til byggða. „2007 var snjór síðast til einhverra leiðinda,“ segir hann.

Olgeir segir að ferðirnar skilji alltaf eitthvað eftir sig. „Þetta er sérlega góður félagsskapur, skemmtilegur andi og svo er maður úti í mjög fallegri náttúru. Það gerist ekki mikið flottara en inni í Jökulgili.“ Hann segir að ferðamenn sem kaupi sig inn í ferðirnar lífgi líka upp á tilveruna og mannlífið. „Þetta er nærri því eins og hjá Sameinuðu þjóðunum,“ segir hann og vísar til þess að ferðamennirnir komi víða að.

Hjónin Olgeir og Guðný Finna Benediktsdóttir búa í Nefsholti. Þau voru með kúa- og kindabú en hafa minnkað við sig og eru nú með um 30 kindur. Hann var húsvörður í Laugalandsskóla, sem var byggður í landi Nefsholts, í 21 ár þar til hann fór á eftirlaun. „Ég segist vera smábóndi og ýmislegt fleira,“ segir hann og rifjar upp að maður nokkur hafi kynnt sig fyrir mönnum sem hafi litið stórt á sig og kallað sig stórkaupmenn. „Þá sagðist hann vera stórbóndi og margt, margt fleira.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert