Ræddu reynsluna af myrkri og kulda

Frá bókamessunni.
Frá bókamessunni. Ljósmynd/MÍB

Velheppnaðri og fjölmennri fjögurra daga Bókamessu í Gautaborg lauk á sunnudaginn þar sem fjöldi heimsþekktra höfunda tók þátt þ.á.m. Lena Anderson og Sofi Oksanen. Ísland átti fimm höfunda á bókamessunni sem tóku þátt í fimm dagskrárliðum messunnar þar sem fjallað var um bækur þeirra frá ýmsum hliðum. Íslensku höfundarnir voru þau Þórdís Gísladóttir, Arnar Már Arngrímsson, Ragnhildur Hólmgeirsdóttir, Snæbjörn Brynjarsson og Kjartan Yngvi Björnsson

Ljósmynd/MÍB

Þar að auki tók Jóhannes Kr. Kristjánsson fjölmiðlamaður þátt í umræðum um Panamaskjölin með þeim Sven Bergman, sem tók viðtalið fræga við Sigmund Davíð Gunnlaugsson í apríl sl., og Joachim Dyfvermark. Gerðu þeir grein fyrir aðdraganda viðtalsins við Sigmund Davíð og fóru yfir aðalatriði málsins en bók um Panamalekann eftir Bastian Obermayer og Frederik Obermaier sem kom út í september var til sölu á bókamessunni.

Kjartan og Snæbjörn á básnum.
Kjartan og Snæbjörn á básnum. Ljósmynd/MÍB

Í tilkynningu frá Miðstöð íslenskra bókmennta kemur fram að hundrað þúsund gestir hafi sótt bókamessuna í ár. Sýnendur voru 836 talsins frá 28 löndum. Fjöldi fyrirlestra var 422 sem 870 fyrirlesarar tóku þátt í frá 38 löndum. 

Á fyrsta degi messunnar stigu Þórdís, Arnar Már og Ragnhildur á svið og ræddu við Gunillu Kindstrand gagnrýnanda og blaðamann. Sögðu höfundarnir frá efni bóka sinna og deildu með áheyrendum ýmsum pælingum um tungumálið og hvernig það væri að skrifa fyrir börn og unglinga en sjónum var beint að barna- og ungmennabókmenntum á bókamessunni í ár.

Ljósmynd/MÍB

Á föstudeginum tók Þórdís þátt í ljóðadagskrá Rum för poesi þar sem hún las nokkur ljóða sinna úr bókinni Tilfinningarök á íslensku, sænsku og ensku. Á síðasta degi messunnar tóku Kjartan og Snæbjörn höfundar trílógíunnar Þriggja heima sögu þátt í líflegum umræðum um stöðu norrænu fantasíunnar, hvernig og hvort hin samnorræna reynsla af kulda, myrkri og ríkum sagnaarfi hafi mótað viðhorf norrænna fantasíuhöfunda.

Arnar Már á básnum.
Arnar Már á básnum. Ljósmynd/MÍB
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert