Trump sýndi mikla vanþekkingu

„Þetta var eins og við var að búast. Hillary Clinton var með sín mál á tæru, vel undirbúin og kom sínum hugmyndum vel fram,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is um kappræður Hillary Clinton og Donald Trump í nótt. 

Kapp­ræðurn­ar eru hinar fyrstu af þrem­ur í aðdraganda forsetakosniga í Bandaríkjunum, en hinar fara fram 9. októ­ber og 19. októ­ber.

Silja segir að Clinton hafi verið brosmild og látið Trump fella sjálfan sig. „Hún náði að vera hörð án þess að vera of árásargjörn. Honum tókst ekki að espa Clinton til reiði, henni hefði verið refsað fyrir það. Henni tókst hins vegar að láta hann stíga í kynjagildrur; grípa mikið fram í fyrir henni á meðan hún var augljóslega með það á hreinu að hann væri að fella sjálfan sig,“ en samtals greip Trump 51. sinni fram í fyrir Clinton á þeim 90 mínútum sem kappræðurnar stóðu yfir.

Trump hóf kappræðurnar ágætlega en eftir fyrstu 20 mínúturnar fór að halla undan fæti hjá honum. „Þá byrjar þetta sundurlausa sjálfshól sem kemur alltaf fram hjá honum þegar spurt er um ofbeldi gagnvart svörtum í borgum og hættuna sem svartir búa við. Hann svarar með umræðu um að hann eigi eignir í umræddum borgum og þekki þess vegna aðstæður og eitthvað slíkt. Hann sýndi mikla vanþekkingu á flestum málefnum sem komu upp; sagði ósatt og var staðinn að því,“ segir Silja en fyrir kappræðurnar hafði Trump sagt að Lester Holt, stjórn­andi og spyr­ill, ætti ekki að meta sannsögli hans og Clinton í kappræðunum.

Trump þrætti fyrir lygarnar og sagði eftir að kappræðunum lauk að hljóðneminn hans hefði verið gallaður, sem var ekki raunin.

62% áhorf­enda CNN sögðu að Cl­int­on hefði haft bet­ur en 27% Trump. Þess ber að geta að fleiri demó­krat­ar en re­públi­kan­ar fylgd­ust með CNN í kvöld. „Ef þú ert að horfa á efnislega þáttinn þá er það bara hlutlægt mat. Trump tókst ekki að espa Clinton til reiði en henni hefði verið refsað fyrir það. Ég held að Clinton hafi gert eins vel og maður veit að maður veit að hún getur og eins vel og hægt er að vonast til.“

Trump og Clinton takast í hendur eftir kappræðurnar í nótt.
Trump og Clinton takast í hendur eftir kappræðurnar í nótt. AFP
Flestir eru á því að Clinton hafi staðið sig betur …
Flestir eru á því að Clinton hafi staðið sig betur í fyrstu kappræðunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert