Úr 50° hita í 30° frost á pólnum

Í vor mun hópur 13 kvenna ganga síðustu breiddargráðuna að Norðurpólnum, um 100 km leið. Hópurinn er blanda af konum frá Mið-Austurlöndum og Evrópu og hafa sumar litla reynslu af slíkum aðstæðum. Um 1000 konur sóttu um að taka þátt í verkefninu sem fór í hópfjármögnun. Þær æfa nú uppi á Langjökli.

mbl.is kom við hjá þeim á dögunum þar sem þær höfðu tjaldað í skammt frá Hveragerði áður en haldið var á jökulinn. 

Það er útivistarkonan og leiðangursstjórinn Felicity Aston, sem búsett er á Íslandi og á íslenskan eiginmann, sem átti frumkvæðið að verkefninu en hún hefur lengi haft áhuga á sambandi Mið-Austurlanda við Evrópu og vildi skapa samtal á milli menningarsvæðanna.

„Ég vildi skipuleggja leiðangur því þar kynnist fólk gjarnan mjög vel á stuttum tíma. Þannig væri kannski hægt að fá einhverskonar innsýn í það af hverju svo mikill misskilningur er til staðar. Hann er oft greinilegastur á milli kvenna á þessum ólíku stöðum þar sem ólík sjónarmið virðast ráða för. Þannig að þetta var mjög áhugavert teymi að setja saman,“ segir Aston sem hefur farið í og stýrt leiðöngrum af svipuðu tagi um 20 ára skeið en hún var fyrsta konan til að skíða þvert yfir Suðurskautslandið. Það gerði hún árið 2012, ferð sem tók 59 daga þar sem hún skíðaði 1744 km langa leið. 

Talið er að leiðangurinn muni taka um 10 daga en hreyfing á ísnum gæti þó lengt gönguna umtalsvert og myndað sprungur sem eru afar varasamar. Þá eru ísbirnir og 40°C frost augljóslega eitthvað sem gæti líka sett strik í reikninginn.

Hópurinn samanstendur af ólíkum konum þar er t.d. blaðakona, vísindakona, útivistarkonur, heimavinnandi húsmóðir auk viðskiptakvenna svo eitthvað sé nefnt en þær eru á aldrinum 26-47 ára.

„Ég veit ekki hversu rökrétt það er en ég hugsaði að fyrst ég gæti þolað 50° hita afhverju gæti ég þá ekki þolað 30° frost,“ segir Maryam Al Ansari sem kemur frá Sádí-Arabíu um hvað hefði orðið til þess að hún sótti um að taka þátt í leiðangrinum.

Hægt er að finna frekari upplýsingar um leiðangurinn á vefnum euroarabianexpedition.com og þá halda þær úti Facebooksíðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert